Suðurnesjasigrar
Keflavík-KR
Keflvíkingar unnu góðan sigur á KR í Intersport-deildinni í kvöld. Lokastaðan í Íþróttahúsinu við Sunnubraut var 88-79 eftir spennandi baráttuleik.
Liðin voru jöfn framan af og var Keflavík með 1 stigs forskot eftir fyrsta leikhluta, 23-22. Í öðrum leikhluta tóku heimamenn af skarið og juku forskotið upp í 12 stig. Vesturbæingar voru þó ekki slegnir út af laginu og minnkuðu muninn niður í 2 stig, 48-46, áður en flautað var til hálfleiks.
Spennan hélt áfram í seinni hálfleik en KR náði að jafna leikinn. Þeir misstu þó Cameron Echols útaf með 5 villur áður en leikhlutinn var úti. Staðan var jöfn fyrir lokafjórðunginn, 64-64, en Keflvíkingar höfðu betur á endanum eftir talsvert uppnám inni á vellinum og á pöllunum.
„Við vorum að spila góða vörn í kvöld og hún fleytti okkur áfram í þessum leik,“ sagði Sigurður Ingimundarson í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn. „Annars vorum við að spila nokkuð vel í kvöld og maður er alltaf sáttur við sigur.“
Tölfræði leiksins
Tindastóll-Grindavík
Grindvíkingar unnu afar mikilvægan sigur á Tindastóli í kvöld, 101-102. Staða þeirra í deildinni hefur verið slæm að undanförnu en þrátt fyrir að þeir sitji enn í 8. sæti geta þeir hæglega fikrað sig upp töfluna með góðum úrslitum í næstu leikjum.
Leikurinn í kvöld var mjög spennandi og jafn þar sem liðin skiptust á að hafa nauma forystu. Grindvíkingar voru yfir í hálfleik, 51-53, en voru einu stigi undir fyrir fjórða leikhluta.
Gestirnir reyndust þó sterkari á endasprettinum sem er eflaust hughreystandi fyrir leikmenn, þjálfara og stuðningsmenn, því að í vetur hefur viljað brenna við að þeir hendi frá sér leikjum á endasprettinum eftir að hafa verið í góðri stöðu.
Darrel Lewis var í miklum ham í kvöld og skoraði 34 stig, en Terrel Taylor kom næstur með 24 stig og 15 fráköst. Nýi maðurinn, Jeff Boschee, skoraði 11 stig og náði sér ekki alveg á strik í langskotunum.
Tölfræði leiksins
VF-myndir/Héðinn Eiríksson