Suðurnesjarimma í Ljónagryfjunni
- fimm leikir eftir í Dominosdeild karla og styttist í úrslitakeppnina
Það er áhugaverður leikur í Dominosdeild karla í kvöld í körfunni. Þar tekur Njarðvík á móti Grindavík í Ljónagryfjunni og hefst rimman kl. 19:15. Leikurinn er afar mikilvægur fyrir bæði lið, enda fer að styttast í úrslitakeppnina.
Njarðvík er í þriðja sæti deildarinnar með 20 stig en Grindavík er í því 9. með 14 stig. Átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina og það er lítill munur á liðunum í sætum 3-9 þegar fimm umferðir eru eftir að deildarkeppninni.
Njarðvík er í þriðja sæti deildarinnar með 20 stig en Grindavík er í því 9. með 14 stig. Átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina og það er lítill munur á liðunum í sætum 3-9 þegar fimm umferðir eru eftir að deildarkeppninni.
„Leikurinn leggst bara prýðilega í mig, þetta verður án efa hörkuleikur eins og gjarnan þegar þessi lið mætast. Ekta „Suðurnesjaslagur,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Njarðvíkur og ítrekaði að mikilvægi leiksins væri mikið fyrir bæði liðin. „Það eru mörg lið á svipuðum stað í deildinni og baráttan um sæti í úrslitakeppninni er því hörð.“
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, er með góða tilfinningu fyrir leiknum.
„Leikurinn leggst vel í mig. Það er stutt eftir af mótinu og við erum eins og staðan er ekki á meðal átta efstu. Hver einasti leikur er gríðarlega mikilvægur í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Njarðvík hafa verið á góðu róli eftir áramót og við þurfum að sýna okkar besta til að leggja þá að velli,“ sagði Sverrir Þór.