Suðurnesjamenn sterkir á Íslandsmótinu í júdó
Njarðvíkingar og Grindvíkingar rökuðu inn verðlaunum
Suðurnesjafólk gerði það heldur betur gott á Íslandsmótinu í júdó fyrir 21 árs og yngri sem fram fór um helgina. Keppendur frá Njarðvík/Sleipni og Grindavík stóðu sig með stakri prýði á mótinu og rökuðu inn verðlaunum.
Njarðvíkingar náðu sínum besta árangri fyrr og síðar. Átta Íslandsmeistaratitlar komu í hús hjá Njarðvíkingum, sex silfurverðlaun og tvö brons. Grindvíkingar voru sömuleiðis hrikalega öflugir á mótinu og nældu sér í þrjá Íslandsmeistaratitla, fjögur silfur og fjögur brons.
Njarðvíkingar sem mættu 13 til leiks, áttu þrjá keppendur í flokki 13-14 ára. Það voru þeir Stefán Elías Davíðsson, Gunnar Örn Guðmundsson og Ingólfur Rögnvaldsson. Þeir kepptu allir til úrslita og mátti engu muna að þeir færu alla leið, en svo fór að Ingólfur krækti sér í Íslandsmeistaratitil.
Í flokki 15-17 ára voru sex keppendur frá Njarðvík/sleipni. Það voru þau Halldór Matthías Ingvarsson, Heiðrún Fjóla Pálsdóttir, Bjarni Baxter Sigfússon, Ægir Már Baldvinsson, Íris Þóra sverrisdóttir og Jana Lind Ellertsdóttir. Íris var á sínu fyrsta móti í þessari grein þrátt fyrir það krækti hún sér í þriðja sæti. Hin fimm urðu Íslandsmeistarar.
Þrátt fyrir erfiðan dag voru hin fimm fræknu skráð í flokk 18-20 ára. Bjarni var dæmdur úr leik í fyrstu viðureign en dómurinn var vægast sagt umdeildur. Bjarni kom til baka og sigraði þá andstæðinga sína og í lokinn urðu þrír jafnir, en vegna innbyrðis viðureigna hlaut Bjarni annað sætið. Heiðrún Fjóla sigraði sína andstæðinga og komst í úrslit en þar meiddist hún en kláraði viðureignina og náði í annað sætið. Ægir sigraði sinn flokk og það gerði Jana Lind einnig.
Góður árangur Grindvíkinga
Grindvíkingar sendu 11 keppendur til leiks á mótið. Í u15 flokki mættust bræðurnir Adam og Róbert Latkowski og var barist grimmt og unnu þeir sitt hvora glímuna, sem varð til þess að þeir urðu að fara í þriðju glímuna þar sem Adam sigraði og endaði sem Íslandsmeistari í u15 -34 og Róbert tók silfrið. Hjörtur Klemensson var Íslandsmeistari u13 - 42 kg og vann allar sínar glímur með glæsibrag. Ágústa Olsson fékk engan andstæðing í stúlknaflokki svo hún keppti á móti drengjum í u13 -40 kg og landaði hún bronsi eins og hetja. Agnar Guðmundsson keppti til úrslita í u13 -46 og endaði hann með silfur eftir gríðarlega flotta úrslita glímu.
Kristinn Guðjónsson keppti í u15 -42 kg og náði þriðja sæti eftir flottar glímur. Tinna Einarsdóttir fékk engar stúlkur í sínum flokki svo hún keppti í gríðarlega sterkum drengja flokki u13 -52 kg þar sem hún fór gjörsamlega á kostum og sigraði allar sínar glímur með glæsibrag, er hún því Íslandsmeistari drengja í flokki u13 -52kg. Guðmundur Sigfinnsson var í mjög sterkum flokki u18 -90 kg átti hann mörg góð tilþrif og landaði bronsi. Aron Snær Arnarsson keppti líka í u18 -90 kg átti flottar glímur, fór í úrslit þar sem hann náði silfri. Aron Snær Arnarsson keppti líka upp fyrir sig í flokki sem heitir u21 -90 kg þar sem hann landaði líka silfri. Pétur Sigurðarson þungarviktar keppti í u18 +90 kg átti flott tilþrif og negldi bronsið.
Þróttarinn Jóhann Jónsson hélt uppi heiðri Vogamanna á mótinu, en hann vann silfur í flokki U13 -50kg.