Suðurnesjamenn sigursælir á Þingvöllum
Fyrsta umferð Íslandsmótsins í rallakstri, Vorrall BÍKR, fór fram í nágreni Þingvalla á laugardaginn. Suðurnesjamennirnir Jón Bjarni Hrólfsson og Sæmundur Sæmundsson á Mitsubishi Lancer Evo 7 bifreið sigruðu. Þeir voru rúmum 30 sekúndum sekúndum fljótari en Pétur Pétursson og Heimi S. Jónssyni sem aka Mitsubishi Lancer Evo 6.
"Okkur tókst það sem lagt var upp með, sem var að aka stíft fyrstu þrjár til fjórar sérleiðar dagsins og reyna að byggja upp forskot áður en haldið var á fimmtu sérleið. Þrátt fyrir að aðalkeppinautarnir hafi bætt tímann sinn á fimmtu sérlið þá náðum við að verja stöðuna. Við vorum einnig að keyra saman í fyrsta sinn á þessum bíl og sigurinn kærkominn," sagði Jón Bjarni í samtali við Víkurfréttir.
Önnur Suðurnesjaáhöfn, þeir Páll Harðarson og Aðalsteinn Símonarson urðu í þriðja sæti en þeir aka á Subaru Impreza STI. Næsta keppni fer fram á Suðurnesjum 5.-6. júni og verður fróðlegt að fylgjast með hvort Suðurnesjamenn verði þar í toppbaráttunni.
Mynd: Hér má sjá bifreið þeirra Jóns Bjarna Hrólfssonar og Sæmundar Sæmundssonar.