Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Suðurnesjamenn rífa í lóðin um miðja nótt
Laugardagur 5. mars 2016 kl. 11:50

Suðurnesjamenn rífa í lóðin um miðja nótt

Einar Ingi Kristjánsson opnaði líkamsræktarstöðina Sport 4 you

Grindvíkingurinn Einar Ingi Kristjánsson opnaði nýlega líkamsræktarstöðina Sport 4 you við Brekkustíg í Njarðvík sem opin er allan sólarhringinn. Hann er með mörg járn í eldinum og stefnir á það að starfrækja fleiri slíkar stöðvar um land allt. Hann leggur mikla áherslu á að hafa líkamsrækt aðgengilega og ódýra en sjálfur hafði hann ekki tækifæri á að stunda hreyfingu sem unglingur. „Ég hef alltaf verið að gera eitthvað sem mig langar að gera, eitthvað sem er aðeins öðruvísi en aðrir eru að gera,“ segir Grindvíkingurinn öflugi sem hefur frá unglingsaldri haft brennandi áhuga á líkamsrækt. Hann æfði áður knattspyrnu en þurfti að hætta sökum meiðsla aðeins 16 ára gamall.

Hann fór fyrst í ræktina með móður sinni í Grindavík skömmu síðar og eftir það var ekki aftur snúið. Fjölskylda Einars er stór og hann segir að ekki hafi alltaf verið til peningar til þess að borga fyrir líkamsrækt fyrir hann á þessum árum. Það varð svo kveikjan að því nú löngu síðar að hann ákvað að stofna sína eigin líkamsræktarstöð þar sem gjald er ekki of hátt og fleiri eiga því möguleika á að stunda líkamsrækt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Svindlaði sér inn í ræktina

„Þegar ég sé þessa 16 og 17 ára stráka sem eru að æfa hérna þá sé ég sjálfan mig í þeim. Þegar ég var á þessum aldri þá þurfti ég stundum að svindla mér inn í ræktina. Hreinlega læðast bara inn því það var ekki til peningur til þess að kaupa líkamsræktarkort,“ segir Einar. Hann hefur verið vakinn og sofinn yfir líkamsrækt síðustu ár og hefur skapað sér fjölda tækifæra með dugnaði og elju. Hann hefur komið víða við. Fyrst sem einkaþjálfari sem eltist við viðskiptavini um öll Suðurnesin auk þess að þjálfa meðal annars með Helga Jónasi í Metabolic. Hann stofnaði svo sjálfur Alphagym í Selvík í Reykjanesbæ sem er einkaþjàlfunarstöð sem Einar og aðrir þjálfarar nota til æfinga fyrir hópa.

Sérstök alphagirls þjálfun fyrir stelpur

Sérstaka athygli hefur vakið hópurinn alphagirls. Sú þjálfun gengur út á að auka sjálfstraust hjá stelpum og efla leiðtogahæfileika þeirra til jafns við styrktaræfingar. Lögð er áhersla á að stelpur séu að lyfta þungu og stunda kraftlyftingar. Einu sinni í mánuðu hittast stelpurnar í Alphagym í Selvík og taka æfingar saman og fræðast í leiðinni. „Ég lít á þetta eins og námskeið í skóla. Þetta snýst um að vera sterkur, bæði líkamlega og andlega, að vera leiðtogi og fyrirmynd en án þess að setja fókusinn á að vera betri en aðrir. Þess í stað setur þú fókus á að vera betri en þú varst í gær. Þetta er fyrir stelpur sem eru tilbúnar að leggja sig fram og tilbúnar að prófa eitthvað nýtt og opnar fyrir því að færa allt lífið sitt upp á annað plan.“

Fólk mætir í ræktina um miðja nótt

Einar segist hafa fengið frábærar viðtökum eftir að Sport 4 you opnaði en ætlunin er að hafa takmarkaðan fjölda í stöðinni fyrst um sinn. Hann segir að markaður sé fyrir stöð sem þessari sem er opin allan sólarhringinn. „Það hefur sérstaklega mikið aðdráttarafl á þessu svæði þar sem margir eru í vaktarvinnu. Þó að þú sért ekki í þannig vinnu þá er þetta frelsi eitthvað sem fólk sækist í. Við lifum í þannig samfélagi sem þú getur nánast fengið hvað sem þú vilt hvenær sem þú vilt. Það er þróun sem við verðum að fylgja svo við sitjum ekki eftir.“ Fólk nýtir sér þennan sveigjanlega tíma og eru dæmi um að fólk mæti um miðja nótt til þess að refsa lóðunum.

Líkamsrækt er Einari hjartans mál sem hann hugsar um hverja einustu mínútu að eigin sögn. „Þegar maður er með svona mikla ástríðu fyrir þessu þá verður maður ekki þreyttur. Þegar viðskiptavinir eru að ná svona miklum árangri og maður er í alvöru að hjálpa einhverjum þá er þetta þess virði.“