Suðurnesjamenn í fremstu röð í Motocross
Suðurnesjamenn stóðu sig með miklum ágætum á Motocross móti sem var haldið í Álfsnesi á Kjalarnesi um síðustu helgi.
Gylfi Freyr Guðmundsson sigraði í B flokki og er sem stendur í öðru sæti á Íslandsmótinu. Gylfi gæti hæglega verið í efsta sæti, en lenti í bilun á síðasta móti og datt niður í 5. sæti.
„Ég gat ekki keppt í fyrstu umferðinni en náði fyrsta og öðru sæti í hinum tveimur,“ sagði Gylfi í samtali við Víkurfréttir. Hann hefur stundað Motocross í þrjú ár og segir þetta vera skemmtilegasta sport sem hann hafi komist í.
„Þetta er bara: Einu sinni prófað þú getur ekki hætt,“ sagði Gylfi að lokum. „Þetta er tímafrekt og dýrt sport sem krefst þess að þú sért í góðu líkamlegu formi, en þetta er rosalega gaman!“
Aðrir keppendur af Suðurnesjum eru líka í fremstu röð þar sem Aron Ómarsson er efstur í heildarkeppni unglinga og Sara Ómarsdóttir er einnig í fremstu röð í kvennaflokki.
VF-mynd/Þorgils Jónsson