Suðurnesjaliðin unnu sína leiki
Þrír leikir fóru fram hjá Suðurnesjaliðunum í Subway-deild kvenna í körfubolta í gær. Öll fóru þau með sigur af hólmi í sínum viðureignum. Grindavík gerði sér lítið fyrir og vann nýkrýnda bikarmeistara Hauka í Ólafssal, Keflavík lagði Íslandsmeistara Vals í Blue-höllinni og loks hafði Njarðvík betur gegn Blikum í Ljónagryfjunni.
Haukar - Grindavík 77:83
(18:22, 17:19, 15:22, 27:20)
Grindvíkingar hafa vaxið með hverjum leiknum undanfarið og þær sýndu nýkrýndum bikarmeisturum enga virðingu í gær. Grindavík hafði forystu allan leikinn og á endanum unnu þær með sex stigum, 77;83.
Robbi Ryan fór hamförum í leiknum og hafði að launum 44 framlagspunkta fyrir frammistöðuna, Ryan skoraði 30 stig, var með fjórtán fráköst og sjö stoðsendingar. Næst á eftir henni var Hekla Eik Nökkvadóttir með sextán stig, fimm fráköst, þrjár stoðsendingar og tuttugu framlagspunkta.
Keflavík - Valur 74:72
(20:20, 15:28, 21:15, 18:9)
Þótt Keflvíkingar komist ekki í úrslitakeppnina þetta árið sýndu þær og sönnuðu í gær að liðið á heima meðal þeirra bestu. Fyrsti leikhluti var hnífjafn en í öðrum leikhluta tóku gestirnir öll völd og voru komnir þrettán stigum yfir þegar blásið var til hálfleiks (35:48).
Keflvíkingar lögðu ekki árar í bát heldur mættu tvíefldar til seinni hálfleiks og unnu upp forskot gestanna og gott betur. Heimakonur voru undir þegar leikurinn var að fjara út en Daniela Wallen setti niður þriggja stiga körfu rétt undir lokin og tryggði sigurinn, 74:72.
Þær Daniela Wallen og Anna Ingunn Svansdóttir voru atkvæðamestar í liði Keflvíkinga eins og oft áður. Daniel með tuttugu stig, tuttugu fráköst, fimm stoðsendingar og 37 framlagspunkta. Anna Ingunn var með 25 stig, tvö fráköst, fjórar stoðsendingar og þrettán framlagspunkta.
Njarðvík - Breiðablik 82:55
Njarðvíkingar sýndu mjög góðan leik í gær og bundu þar með endi á fjögurra leikja taphrinu. Liðið virkaði jákvætt og fullt af sjálfstrausti sem gefur þeim góð fyrirheit fyrir komandi úrslitakeppni.
Því miðu er engin tölfræði aðgengileg fyrir leikinn.