Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Suðurnesjaliðin töpuðu í bikarnum
Föstudagur 2. júlí 2004 kl. 23:25

Suðurnesjaliðin töpuðu í bikarnum

Suðurnesjaliðin Njarðvík, Grindavík og Reynir Sandgerði féllu í kvöld öll úr Visa bikarkeppni karla í knattspyrnu. Njarðvíkingar töpuðu heima 1-3 gegn Íslandsmeisturum Kr, Grindvíkingar lutu í lægra haldi fyrir Fylkismönnum í Árbænum 4-1 og Reynir tapaði í Kópavogi 1-0 fyrir HK. Keflavík leikur svo á mánudag við Fram og er eina Suðurnesjaliðið sem enn er í bikarkeppninni.

Á Njarðvíkurvelli hófu heimamenn leikinn af krafti og fengu þrjár hornspyrnur í röð en náðu ekki að skora. Á 6. mínútu leiksins dró til tíðinda þegar Theodór Elmar Bjarnason sendi knöttinn fyrir mark Njarðvíkinga og fann kollinn á Kjartani Finnbogasyni og staðan því 0-1 fyrir Kr. Kjartan var mjög grimmur eftir þetta og gerði harða atlögu að marki Njarðvíkinga. Á 35. mínútu leiksins komst Magnús Ólafsson einn inn fyrir vörn Kr-inga en var felldur í teignum af Kristjáni Erni Sigurðssyni en Einar Örn Daníelsson, dómari leiksins, sá ekkert athugavert við það og lét leikinn halda áfram. Kr-ingar voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og hafði Friðrik Árnason, markmaður Njarðvíkinga, nóg að gera. Staðan í hálfleik 0-1 fyrir Kr.
Í upphafi seinni hálfleiks skoruðu Kr-ingar öðru sinni og þar var á ferðinni Ágúst Gylfason og staðan því 0-2. Á 63. mínútu braut svo varnarmaðurinn Jón Fannar Guðmundsson á Theodóri Bjarnasyni rétt fyrir utan teig og hlaut hann gult spjald fyrir vikið. Ágúst Þór tók aukaspyrnuna og sendi boltann beint á Kjartan Finnbogason sem skallaði boltann hið annað sinn í markið og staðan því 0-3 og útlitið svart hjá heimamönnum. Þremur mörkum undir tókst Njarðvíkingum að skora og minnka muninn í 1-3, markið gerði Jón Fannar Guðmundsson á 68. mínútu eftir að Kr-ingar náðu ekki að hreinsa boltann nægilega vel út úr teignum. Eftir markið hertu heimamenn róðurinn en náðu ekki að minnka muninn frekar. Njarðvíkingar eru því dottnir út úr bikarkeppninni en Guðni Erlendsson, leikmaður Njarðvíkur, hafði þetta að segja að leik loknum; „ Ég er mjög ósáttur, við ætluðum miklu lengra í þessarri keppni en það tókst ekki í dag. Við vorum að gefa þeim mörk í föstum leikatriðum og það er ekki okkar siður. Í heildina fannst mér þetta bara hörkuleikur og úrslitin hefðu jafnvel getað dottið á hvorn veginn sem var.“

Í Árbænum steinlágu Grindvíkingar 4-1 gegn Fylki og voru þeir 3-0 undir í hálfleik. Á 65. mínútu leiksins skoraði Alfreð Jóhannsson fyrir Grindvíkinga en það dugði ekki til og 4-1 tap því staðreynd. Gestur Gylfason var að vonum ekki ánægður með frammistöðu liðsins í leiknum; „Við áttum þetta fyllilega skilið, Fylkismenn voru miklu betri og mun hreyfanlegri. Þetta var þó aðeins skárra í seinni hálfleik hjá okkur en alls ekki nægilegt. Við ætlum núna bara að einbeita okkur að deildinni og það er Víkingur í næsta leik, ef við spilum eins og við gerðum í kvöld þá má búast við sömu úrslitum, en það verður ekkert svoleiðis, við lögum þetta fyrir næsta leik.“

Reynismenn mættu í Kópavoginn og lutu þar í lægra haldi gegn HK 1-0 en voru síður slakari aðilinn. Gunnar Oddsson, þjálfari Reynis, var nokkuð sáttur við gang mála. „Þetta var bara járn í járn og við áttum t.d. skalla í stöng, ég var mjög sáttur við spilamennsku okkar í þessum leik og í heildina þá var bara góður svipur á liðinu.“

VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024