Suðurnesjaliðin þurfa rokk og dúndur til þess að lifa af
Suðurnesjasveinar í basli í 8-liða úrslitum að mati ritstjóra Körfunnar
Í dag hefst úrslitakeppni karla í körfubolta en þar mæta þrjú Suðurnesjalið til leiks. Keflvíkingar fá Tindastól í heimsókn í hörkurimmu. Grindvíkingar mæta deildarmeisturum KR í Vesturbænum á meðan Njarðvíkingar sækja Stjörnuna heim á morgun föstudag. Við fengum Njarðvíkinginn Jón Björn Ólafsson, ritstjóra Körfunnar, til þess að spá í spilin fyrir komadi átök. Jón er ekkert of bjartsýnn fyrir hönd Suðurnesjasveina og býst allt eins við snemmbúnu sumarfríi hjá öllum liðum.
Svæsin naflaskoðun og samþjöppun
Njarðvík - 7. sæti og mæta Stjörnunni
Form: Fjórir tapleikir í röð
„Það er ekkert rosalega staðgóður morgunverður að fara með fjóra tapleiki inn í úrslitakeppnina. Alveg sama þótt menn hafi þóst sjá einhver fín teikn á lofti hjá mönnum sem hafa ekki verið að fá mjög margar mínútur framan af. Það er auðvitað til komið vegna manneklu. Mér finnst bara Njarðvík í ekkert of góðri stöðu þó menn hafi verið brattir á blaðamannafundi nú fyrir úrslitakeppni. Þeir tala um að þetta sé rétti tíminn til þess að smella saman en Njarðvíkingar eru alls ekki í góðum málum á leiðinni inn í þessa úrslitakeppni.“
Jón segir meiðsli Loga koma á versta tíma og eins er óvitað hvaða áhrif þetta inn og út ástand á Bonneau hafi. „Það er til mikils ætlast ef Njarðvíkingar búast við einhverju af honum. Þó svo að hann sé atvinnumaður þá er hann ekki í leikformi og það þarf að vera til staðar.“ Jón býst þó við að Njarðvíkingar bíti frá sér og láti Stjörnuna hafa fyrir hlutunum.
„Stjarnan læðist þarna í 2. sætið með því að sigra síðustu fjóra leiki sína í deildinni á meðan Njarðvíkingar tapa síðustu fjórum. Það er því voðalega auðvelt að segja að Stjarnan sé sigurstranglegri, en ég set spurningamerki við það. Mér finnst Njarðvíkingar ekkert allt of miklir „underdogs“ í einvíginu því frammistaða þeirra gegn Stjörnunni í deildinni var nokkuð góð.“
„Njarðvíkingar voru aldrei að horfa á neitt sjöunda sæti þegar þessi deild fór af stað. Þetta er hins vegar staðan sem þeir þurfa að vinna sig úr. Ég held að þeir hafi helst viljað mæta Keflavík af þessum þremur toppliðum. Njarðvíkingum dugir ekkert annað en einhver svæsin naflaskoðun og einhvers konar samþjöppun í hópnum til þess að komast upp úr þessu einvígi. Eftir að þeir bættu við Hauki Helga þá gerðu margir þá kröfu að þeir væru að fara að berjast um titilinn en fjarvera Loga setur þá frekar aftarlega á merina í þessari titilumræðu.“
Hill er enginn Earl Brown
Keflavík - 3. sæti og mæta Tindastól
Form: Tapað síðustu þremur af fimm
„Þeir hafa haft orðspor á sér fyrir að vera harðir og fastir fyrir í gegnum tíðina. Ef það er einhvern tímann þörf á því þá er það í þessari seríu. Þetta Stólalið, þeir biðja bara um meira ef þú ert eitthvað að lemja á þeim. Stólarnir tóku báða deildarleikina og því miður þá sé ég ekki þetta Keflavíkurlið, sem við sáum í lok deildarkeppni, ná í sigur þarna fyrir norðan. Það þýðir bara að menn séu að fara í sumarfrí eftir 8-liða úrslitin enn eina ferðina. En Tindastólsmenn geta ekkert hlaupið með þeim ef þeir hitta á sinn leik. Þessi ótímabæru og illa ígrunduðu skot verða að detta og þau gera það ekkert í öllum leikjum. Ef þau detta þá eru þeir hættulegir út um allan völl. Það þarf t.d. að fylgja Magga Gunn eftir frá „Curry-svæðinu“ og þegar þess þarf þá ertu búinn að opna teigvörnina þína svo mikið. Þá fara menn eins og Reggie að ógna bæði með því að keyra að körfunni og skjóta fyrir utan. Þegar það gerist þá ertu kominn í vandræði gegn Keflavík.“
Jón telur að Keflvíkingar þurfi á þeim stöðuleika að halda sem einkenndi liðið í upphafi móts, núna þegar alvaran tekur við. „Þeir þurfa einhvern veginn að enduruppgötva sig fyrir þessa úrslitakeppni. Við sáum leik hérna um daginn þar sem Valur Orri skorar ekki stig og hann var að dominera þetta mót liggur við hérna í upphafi. Það eru allt of miklar sveiflur hjá þessu liði. Fyrirfram sé ég þá vera í viðlíka vandræðum og Njarðvík. Á leiðinni inn í einvígið lítur út fyrir að þeir sjái ekki körfubolta í apríl.“
Glíma Jerome Hill við fyrrum félaga sína í Tindastól mun hafa mikið að segja um útkomu einvígisins. Jón er þó ekki á því að Keflvíkingar hafi bætt lið sitt með því að skipta á Earl Brown og Hill. „Jerome Hill finnst mér vera meira hættumerki fyrir Keflavík en annað. Í síðasta leik á móti Stólunum þá virtist hann ekki vera að halda fókus. Þó svo að hann skori sín stig, þá ef þú horfir á þetta heildrænt þá var hann meiri baggi. Kannski hefur hann náð því úr nösunum á sér, að vera að spila gegn liðinu sem rak hann. Það er vonandi bara búið, maður myndi vænta þess af atvinnumanni. Það gátu fá lið hamið Earl Brown. Mér finnst Hill vera þægilegri fyrir varnir annara liða. Mér fannst hverfa úr vopnabúrinu við þessa tilfærslu. Earl var leiðandi í áberandi tölfræðiþáttum og það getur vel verið að Hill sé það líka, en hann er bara enginn Earl Brown.
Valur Orri er lykilmaður í einvíginu að mati Jóns. „Það skiptir Keflvíkinga gríðarlega (sagt með Jonna rödd) miklu máli að fá hann í gang. Hann er einfaldlega of góður til þess að bjóða mikið lengur upp á spilamennsku eins og í lok deildarinnar. Hann hefur sýnt það oft að hann er slægur og kann vel við sig á þessum stóru stundum. Ég hef litlar áhyggjur af honum. Ég hef hins vegar áhyggjur af dýptinni hjá Keflavík. Svona verkefni er ekkert keyrt bara á einhverju byrjunarliði.“
Ljón á vegi unga þjálfarans
Grindavík - 8. sæti og mæta KR
Form: Tapað síðustu fjórum af fimm
„Þeir Grindvíkingar eru með hörkulið en það er búið að ganga á ýmsu hjá þeim, eins og Suðurnesjaliðunum öllum. Þeir fara í gegnum breytingar í þjálfaraliðinu og skipta um Kana. Af Suðurnesjaliðunum þremur þá eru Grindvíkingar með reynsluminnsta þjálfarann, sem í ofanálag er að þjálfa jafnaldra sína og jafnvel einhverja sem eru eldri en hann. Það var fyrirséð í sumar þegar hann var ráðinn að það yrðu einhver ljón á vegi þessa unga þjálfara og hann hefur alveg fengið sín verkefni að glíma við. Þessi hópur er búinn með þetta allt og þeir lönduðu titlum þarna í Grindavík fyrir ekki svo löngu síðan. Menn gleyma ekkert körfuboltahæfileikunum yfir nótt. Mögulega er þessi kjarni þeirra aðeins orðinn veðraður og þá er í fínu lagi að beina spjótum sínum að yngri mönnum til þess að stíga upp. Það er algjört lykilatriði að Garcia nái sér í gang. Um leið og hann fer að verða ógnandi þá sjáum við stráka eins og Ómar leika lausum hala og njóta sín í botn. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru KR-ingar dýpri og þeir eru með Craion. Þetta verður erfitt og Grindvíkingar þurfa að fara í DHL höllina og vinna, en þar hafa KR-ingar unnið síðustu 43 af 46 leikjum sínum. Þessi þrjú Suðurnesjalið eiga það öll sammerkt, að ef þau ætla að lifa af þessi 8-liða úrslit, þá þarf eitthvað rokk og dúndur að gerast á næstu sólarhringum. Suðurnesjaliðin eiga öll einhvern séns á því að fara áfram. Grindavík þó sístan. Ég fæ ekki séð að í fimm leikjum þá hafi þeir KR þrisvar.“