Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Suðurnesjaliðin styrkja leikmannahópana
Eli Beard er nýgengin til liðs við Grindavík og hefur fallið vel að leik liðsins. Grindvíkingar hafa unnið tvo af síðustu þremur leikjum og eru komnar úr fallsæti í Lengjudeildinni. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 3. ágúst 2021 kl. 11:42

Suðurnesjaliðin styrkja leikmannahópana

Knattspyrnuliðin á Suðurnesjum hafa verið að styrkja leikmannahópa sínna undanfarið fyrir lokaátökin á Íslandsmótinu. Hér að neðan má sjá hvaða breytingar hafa orðið á liðunum.

Keflavík, meistaraflokkur karla:

Þröstur Ingi snýr aftur í Keflavík

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markmaðurinn Þröstur Ingi Smárason hefur snúið aftur til Keflavíkur eftir lánsdvöl hjá Víðismönnum. Þröstur spilaði með Víðismönnum í þriðju deildinni og lék einnig í Mjólkurbikarnum með þeim.

Þröstur er 22 ára gamall og er byrjaður að æfa með liðinu.

Keflavík, meistaraflokkur kvenna:

Cassie Rohan í Keflavík

Keflavík hefur samið við bandaríska miðjumanninn Cassie Rohan sem er 23 ára gömul og kemur frá Chicago Red Stars.

Fyrsti leikur Cassie með Keflavík var gegn Selfossi þann 13. júlí.

Cassie Rohan

Grindavík, meistaraflokkur karla:

Gabriel Robinson til liðs við Grindavík

Grindavík hefur samið við bandaríska varnarmanninn Gabriel Robinson út yfirstandandi keppnistímabil í Lengjudeild karla. Gabriel er 25 ára gamall varnarmaður sem hefur aðallega leikið í Bandaríkjunum.

Gabriel, eða Gabe eins og hann er kallaður, er hávaxinn og sterkur varnarmaður. Hann lék í ár með liði CSD Municipal í Guatemala en hafði þar áður leikið í nokkur ár í B-deildinni í Bandaríkjunum. Hann átti möguleika á því að semja við sænskt b-deildar lið fyrir tveimur árum en kaus af fjölskylduástæðum að spila áfram í Bandaríkjunum.

„Það er ánægjulegt að fá Gabe til liðs við okkur. Við höfum fylgst með honum í nokkra mánuði og teljum að hann færi okkur meiri breidd og tækifæri í varnarleiknum. Hann er öflugur skallamaður, með góðan hraða og frábær innköst,“ segir Sigurbjörn Hreiðarsson, þjálfari Grindavíkur.

Gabe er sérstaklega öflugur í innköstum og getur kastað boltanum inn í teig af löngu færi. Það færir Grindavíkurliðinu skemmtilega vídd í sóknarleikinn.

Gabe verður væntanlega kominn með leikheimild gegn Vestra í næsta leik Grindavíkur, föstudaginn 7. ágúst.

Gabriel Robinson

Jósef Kristinn Jósefsson sneri aftur

Jósef sneri aftur á knattspyrnuvöllinn í leiknum gegn Fjölni og minnti heldur betur á hæfileika sína í stöðu vinstri bakvarðar. Jobbi fiskaði vítaspyrnu á 60. mínútu eftir magnaðan sprett þar sem markvörður Fjölnis tók Jósef niður.

Grindavík, meistaraflokkur kvenna:

Eli Beard til liðs við Grindavík

Grindavík hefur fengið til sín góðan liðsauka því bandaríski leikmaðurinn Eli Beard hefur gengið til liðs við félagið. Eli er framliggjandi miðjumaður, hún er 25 ára gömul og hefur leikið sem atvinnumaður með WFC Ramat Hasharon og Maccabi Holon í Ísrael.

Eli lék sinn fyrsta leik í sigri Grindavíkur á Aftureldingu.

„Eli er hæfileikaríkur leikmaður sem getur vonandi hjálpað okkur á seinni hluta tímabilsins. Hún er skapandi miðjumaður sem færir okkur meiri gæði á síðasta þriðjungi vallarsins,“ segir Jón Óli Daníelsson, þjálfari Grindavíkur, um Eli.

Helga Guðrún á láni til Grindavíkur

Helga Guðrún Kristinsdóttir er gengin til liðs við Grindavík á láni frá Stjörnunni. Helga Guðrún er uppalin í Grindavík en hefur verið á mála hjá Stjörnunni frá því 2019.

Helga er að koma til baka eftir erfið meiðsli og mun vonandi hjálpa sínu uppeldisfélagi í harðri fallbaráttu í Lengjudeild kvenna. Helga hefur leikið 111 í deild og bikar og skorað í þeim 25 mörk.

Helga Guðrún kom við sögu í leiknum gegn Víkingi Reykjavík og átti fína innkomu.

Þróttur, meistaraflokkur karla:

Agnar Guðjónsson í Þrótt

Agnar er 24 ára gamall kantmaður og kemur á láni frá Gróttu sem hann hefur leikið með í Lengjudeildinni í sumar.

Í fyrra spilaði hann með Kríu í fjórðu deildinni og skoraði þá fimm mörk í ellefu leikjum. Hann hefur alls spilað 93 keppnisleiki í meistaraflokki og skorað í þeim þrettán mörk.

Hann gæti spilað með Þrótti gegn Haukum á föstudag.

Agnar er tvíburabróðir Dags Guðjónssonar, sem einnig leikur með Þrótti, og verður þetta í fjórða sinn sem tvíburar spila í Vogum frá upphafi.

Agnar Guðjónsson

Þorvaldur Rúnarsson í Þrótt

Þorvaldur er markmaður sem skiptir úr Kríu yfir í Þrótt

Njarðvík, meistaraflokkur karla:

Conner Rennison til Njarðvíkur

Njarðvík hefur fengið Conner Rennison á láni frá Kórdrengjum. Conner er nítján ára enskur miðjumaður og verður löglegur í næsta leik sem verður gegn Kára föstudaginn 6. ágúst á Rafholtsvellinum.

Conner Rennison

Víðir, meistaraflokkur karla:

Atli Freyr Ottesen og Stefán Birgir Jóhannesson eru gengnir til liðs við Víði en þeir hafa báðir leikið með Njarðvík undanfarin ár.

Atli Freyr hefur áður spilað með Víði, hann lék með liðinu 2019 og skoraði þá átta mörk í 21 leik. Atli opnaði markareikning sinn hjá Víði og þegar hann skoraði í 3:0 sigri á Einherja.