Suðurnesjaliðin spila í kvöld
Keflvíkingar fá Hauka í heimsókn á Njarðtaksvöllinn í Reykjanesbæ í kvöld og Grindvíkingar fara í Kópavoginn og heimsækja Breiðablik. Leikirnir eru báðir í 7. umferð Pepís-deildar karla í knattspyrnu og hefjast kl. 19:15.
Leikur Keflavíkur og Hauka er nokkuð sögulegur, en liðin léku síðast í efstu deild árið 1979 en það er eina skiptið sem Haukar hafa leikið þar. Fyrir leikinn er Keflavík í 2. sæti deildarinnar með 13 stig en Haukar eru í því 11. með 2 stig. Eyjamenn skutust á toppinn í gær en með sigri í kvöld ná Keflvíkingar toppsætinu á ný.
Það þarf ekki að eyða löngum tíma í að ræða fyrri leiki Keflavíkur og Hauka í efstu deild en þeir eru aðeins tveir og voru leiknir árið 1979. Þá lauk fyrri leiknum með markalausu jafntefli á heimavelli Hauka á Hvaleyrarholti. Keflavík vann svo sinn heimaleik 4-1 þar sem Steinar Jóhannsson skoraði þrjú mörk og Ragnar Margeirsson eitt.
Liðin mættust 6 sinnum í næstefstu deild 1981, 1991 og 2003. Keflavík vann alla leikina og markatalan er í B-deildinni er 24-2 fyrir Keflavík. Þrír leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur skoruðu gegn Haukum árið 2003, þeir Magnús Þorsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson og Guðjón Antoníusson.
Liðin hafa mæst tvisvar sinnum í bikarkeppni KSÍ, árin 1990 og 1992. Keflavík vann báða leikina, samanlagt 7-0, segir í ágætri samantekt á vef Keflavíkur.
Breiðablik - Grindavík
Grindavík sækir Breiðablik heim á Kópavogsvelli í kvöld. Grindavík er án stiga eftir 6 leiki en Breiðablik í 3. sæti með 11 stig. Þetta verður fyrsti leikur Grindavíkur undir stjórn Ólafs Arnar Bjarnasonar.
Ekki verður annað sagt en hann taki við liðinu við erfiðar aðstæður. Það situr sem fastast á botninum og þá verður Grindavík án þriggja lykilmanna í kvöld. Jóhann Helgason er í leikbanni og þá eru Scott Ramsey og Grétar Hjartarson meiddir. Ramsey meiddist í bikarleik gegn Þór og hefur gengið erfiðlega að fá bót meina sinna og óvíst um framhaldið en hann fékk slæmt högg á lærið. Þá meiddist Grétar í baki í síðasta leik gegn ÍBV en talið en hann verði klár í næsta leik gegn Haukum. Jafnframt glíma fleiri leikmenn liðsins við meiðsli.