Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Suðurnesjaliðin öll með sigra
Mánudagur 22. janúar 2007 kl. 10:05

Suðurnesjaliðin öll með sigra

Í gær var góður dagur hjá Suðurnesjaliðunum í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Njarðvíkingar komust á topp deildarinnar með sigri á spútnikliði Hamars/Selfoss og Keflavík og Grindavík bundu langþráðan enda á taphrynur sínar í deildinni.

 

Viðureing Grindavíkur og Þórs úr Þorlákshöfn var æsispennandi í gær en Grindvíkingar höfðu langþráðan sigur 98-97. Fyrir leikinn höfðu Grindvíkingar tapað sjö deildarleikjum í röð. Leikurinn var jafn og spennandi og í lokaleikhlutanum skiptust liðin á því að hafa forystuna. Þegar tvær sekúndur voru til leiksloka var brotið á leikmanni Þórs og tóku gestirnir leikhlé. Staðan var þá 98-97. Eftir leikhléið settu Þórsarar upp sóknarfléttu og náðu þeir að taka lokaskotið en það fór ofan í en svo ótrúlega vildi til að boltinn hrökk aftur upp úr hringnum og því fögnuðu Grindvíkingar sigri… innilega.

 

Í Keflavík var ljóst að heimamenn ætluðu ekki að láta sinn fimmta ósigur í röð í deildinni verða að veruleika. Heimamenn hófu leikinn af krafti og komust í 35-17 í fyrsta leikhluta þar sem Magnús Gunnarsson gerði fjórar þriggja stiga körfur í upphafs leikhlutanum. Fjölnismenn minnkuðu muninn fyrir hálfleik í 58-53. Það voru þó Keflvíkingar sem voru sterkari aðilinn á lokasprettinum og höfðu loks sigur 102-90. Ismail Muhammad gerði 25 stig í leiknum en mátti þola það að láta Hörð Axel Vilhjálmsson troða yfir sig með miklum tilþrifum. Auk stiganna 25 tók Muhammad 12 fráköst. Magnús Gunnarsson gerði 23 stig í leiknum og hitti úr 5 af 11 þriggja stiga tilraunum sínum. Hjá Fjölni var Nemanja Sovic með 22 stig og 11 fráköst. Kareem Johnson gerði 15 stig og tók 20 fráköst. Bárði Eyþórssyni, þjálfara Fjölnis, var vikið út úr húsi er hann fékk sína aðra tæknivillu og haft er eftir honum í Morgunblaðinu í dag að dómgæsla í leiknum hafi verið mjög slök og að íslensk dómgæsla sé í dag á lágu plani.

 

Njarðvíkingar komust á topp Iceland Express deildarinnar með sigri á Hamri/Selfoss 69-75 í Hveragerði. Jeb Ivey gerði 17 stig fyrir Njarðvík en hjá H/S var Friðrik Hreinsson stigahæstur með 18 stig. Njarðvíkingar leiddu að loknum fyrsta leikhluta en heimamenn höfðu yfir í hálfleik 42-40. Brenton Birmingham hefur haft það að sið að undanförnu að rífa sína menn í gírinn og á því varð engin undantekning í gær þegar hann setti niður góða þriggja stiga körfu þegar fjórar mínútur voru til leiksloka og kom Njarðvíkingum yfir í fyrsta sinn í leiknum í nokkurn tíma. Þessi karfa Brentons kom Njarðvíkingum á lagið og þeir kláruðu leikinn af krafti 69-75. Brenton gerði 14 stig í gær og komu þau öll þegar mest á reyndi.

 

Skallagrímur hafði betur gegn KR í Borgarnesi 93-84 og því eru það Njarðvíkingar sem einir verma toppinn í deildinni.

 

Staðan í deildinni

 

VF-myndir/ Þorsteinn G. Kristjánsson/Þorgils Jónsson og www.hamarsport.is

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024