Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Suðurnesjaliðin jöfn að stigum eftir sigur Grindavíkur
Sunnudagur 12. september 2004 kl. 18:36

Suðurnesjaliðin jöfn að stigum eftir sigur Grindavíkur

Grindvíkingar tryggðu sér sæti í úrvalsdeild að ári með góðum útisigri á Keflavík í dag, 3-4.

Leikurinn var skemmtilegur áhorfs þar sem mörkin létu ekki standa á sér þrátt fyrir að völlurinn væri hundblautur og afar erfiður yfirferðar. Keflvíkingar mættu til leiks án þjálfara síns, Milan Jankovic, sem var í banni sem og Zoran Ljubicic, en Grindvíkingar voru enn ver staddir. Óli Stefán Flóventsson og Gestur Gylfason voru í banni og þá þurftu þeir líka að kalla á gamla jaxlinn Þorstein Bjarnason til að standa á milli stanganna. Þorsteinn, sem er 47 ára, stóð fyllilega fyrir sínu og sannaði hið fornkveðna að lengi lifir í gömlum glæðum.

Keflvíkingar voru mun sterkari aðilinn framan af leik og áttu fjöldann allan af góðum sóknum fyrsta korterið án þess að Grindvíkingar ógnuðu að nokkru marki. Vörn gestanna hélt þó aftur af þeim allt þar til á 18. mín þegar Ray Anthony Jónsson, bakvörður Grindavíkur, gaf slæma sendingu inn í eigin vítateig þar sem Hólmar Örn Rúnarsson náði boltanum. Eftir nokkuð klafs sendi Guðmundur Bjarnason boltann í eigið mark.

Flestir héldu að heimamenn hefðu nú náð tökum á leiknum en því fór fjarri. Leikur þeirra datt niður strax á eftir og Grindvíkingar gengu á lagið. Þegar rúmar 20 mínútur voru liðnar af leiknum jafnaði Óskar Örn Hauksson metin með góðum skalla á fjærstöng eftir hornspyrnu Momirs Mileta, 1-1.

Þeir komust svo yfir á 26. mín þegar Sinisa Kekic skallaði aðra hornspyrnu frá Mileta framhjá Magnúsi í markinu. Staðan orðin 1-2 á augnabliki og Keflvíkingar orðnir uggandi.

Það sem eftir lifði af hálfleiknum var nokkuð jafnræði með liðunum og ekki mikið um hættuleg færi þrátt fyrir að Þorsteinn hafi varið nokkuð vel á 30. mín þegar boltinn stefndi í mark hans eftir mikinn hamagang í teignum.

Keflvíkingar tóku sig á í byrjun seinni hálfleiks og voru ógnandi. Hólmar átti gott skot úr teignum á 51. mín en boltinn fór rétt framhjá og mínútu síðar fengu þeir aukaspyrnu á hættulegum stað, rétt utan teigs.

Haraldur Guðmundsson stillti boltanum upp og skaut glæsilegu bogaskoti yfir vegginn og upp í samskeytin, óverjandi fyrir Þorstein. Staðan var jöfn, 2-2, og allt gat gerst.

Haraldur var aftur á ferð á 59. mín þegar Scott Ramsey sendi boltann inn í teig úr aukaspyrnu af hægri kanti. Haraldur náði til hans á undan öðrum og kom Kefla´vik yfir 3-2.

Keflvíkingar höfðu aftur náð stjórninni á leiknum, en það átti eftir að breytast.

Á 62. mín jafnar markahrókurinn Grétar Hjartarson leikinn, 3-3, með skemmtilegu marki. Hann fékk knöttinn í þröngu færi innan vítateigs Keflvíkinga og lyfti honum aftur fyrir sig, yfir Magnús í markinu og í netið.
Eftir markið datt leikurinn nokkuð niður, en þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka sóttu Keflvíkingar með miklum látum og munaði oft minnstu að fjórða markið kæmi, en Grindvíkingar voru á tánum í vörninni og bægðu hættunni loks frá.

Á 85. mín greiddu gestirnir Keflvíkingum náðarhöggið þegar Alfreð Jóhannesson slapp inn fyrir vörn heimamanna eftir sendingu Grétars og skoraði fjórða markið. Mikil rangstöðulykt var af markinu og vildu Keflvíkingarnir meina að Alfreð hefði verið vel fyrir innan vörnina þegar sendingin kom.

Markið stóð engu að síður og staðan breyttist ekki. Sigur Grindavíkur var staðreynd og liðin eru nú jöfn að stigum og einnig með sama markamun, en Keflavíkingar eru ofar á skorðuðum mörkum. Grindvíkingar fá Víkinga í heimsókn í síðustu umferðinni, en Keflavík sækir Fram heim í Laugardalinn.

Stefán Gíslason, miðvörður Keflavíkur, var ekki sáttu í leikslok enda höfðu þeir tvisvar hent frá sér forystunni. „Þetta var hrikalegt. Í bæði skiptin sem við komumst yfir dettur leikurinn niður hjá okkur. Þriðja markið hjá þeim var virkilega ódýrt og svo sá línuvörðurinn ekki rangstöðuna í því fjórða þótt leikmaðurinn hafi verið fimm metra fyrir innan. Það er ótrúlegt að línuverðir geti staðið sig svona illa í leik eftir leik án þess að ekkert sé gert í þessu. Hann ætti að vera að dæma í þriðju deildinni,“ sagði Stefán ómyrkur í máli.

Grétar Hjartarson, markakóngur Grindvíkinga var ólíkt hressari á leiðinni í klefann enda sigur í höfn og deildarsætið tryggt fyrir næsta ár. „Léttirinn er ólýsanlegur. Það er gott að þurfa ekki að hafa áhyggjur af falli í síðasta leiknum og við getum bara haft gaman að honum og endað tímabilið með stæl!“ Grétar taldi sigurinn verðskuldaðan þar sem þeir hafi verið betra liðið á vellinum í dag.
VF-myndir/Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024