Suðurnesjaliðin í sérflokki í bikarkeppni yngri flokka
Um helgina fóru fram úrslitaleikir yngri flokka í körfubolta en leikið var í Vodafonehöllinni í Reykjavík og voru að sjálfsögðu fjölmargir fulltrúar frá Suðurnesjunum. Nokkrir bikarar náðust í safnið en hér að neðan má sjá umfjöllun frá vefsíðunni Karfan.is sem fylgdist með gangi mála.
Keflavík bikarmeistari í 9. flokki kvenna
Keflavík tryggði sér bikarmeistaratitil í 9. flokki kvenna í körfubolta með öruggum sigri á Njarðvík, 16-53, um helgina. Keflavík náði strax afgerandi forustu í leiknum og leiddu 0-17 eftir fyrsta leikhluta. Það er oft sagt og sannaðist í dag að vörnin vinnur titla því flottur varnarleikur Keflavíkur var munurinn á liðunum í dag. Mikilvægasti leikmaður leiksins var valin Laufey Rún Harðadóttir sem átti virkilega góðan dag fyrir Keflavík. Hún skoraði 21 stig, hirti 5 fráköst og stal 5 boltum.
Njarðvík bikarmeistari í stúlknaflokki
Njarðvíkingar eru bikarmeistarar í stúlknaflokki eftir 52-47 spennusigur á Hamri/FSu í bikarúrslitaleik liðanna í Vodafonehöllinni að Hlíðarenda. Lokaspretturinn var æsispennandi þar sem Njarðvíkingar reyndust þrautgóðir á raunastund. Andrea Björt Ólafsdóttir var valin besti maður leiksins en þegar í harðbakka sló steig hún rækilega upp og leiddi Njarðvíkinga til sigurs með 11 stig og 15 fráköst. Hjá Hamri/FSu var Marín Laufey Davíðsdóttir í sérflokki með 18 stig og 24 fráköst en rimma hennar við Andreu í Njarðvíkurliðinu var stórskemmtileg allan leikinn.
Njarðvík bikarmeistari í drengjaflokki
Njarðvíkingar eru bikarmeistarar í drengjaflokki þetta árið eftir 102-92 sigur á KR í úrslitaleik liðanna í Vodafonehöllinni. Maciej Baginski var valinn besti maður leiksins með 42 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar en um bráðskemmtilegan leik var að ræða. Eins og lokatölurnar gefa til kynna þá leiddist mönnum ekkert í sóknarleiknum.
Keflavík bikarmeistari í 10. flokki kvenna
Keflvíkingar urðu bikarmeistarar í 10. flokki kvenna eftir öruggan sigur á stöllum sínum úr Grindavík. Keflavík tók snemma frumkvæðið í leiknum og kláraði dæmið 59-42. Sara Rún Hinriksdóttir var valin besti maður leiksins en hún gerði 24 stig, tók 12 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal 3 boltum í liði Keflavíkur. Hjá Grindavík var Ingibjörg Sigurðardóttir atkvæðamest með 22 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar.
Grindavík bikarmeistari í 9. flokki karla
Grindavík vann fyrsta bikarmeistaratitil helgarinnar með góðum sigri á Keflavík að Hlíðarenda. Grindavík stýrði leiknum frá upphafi til enda en Keflavík var þó aldrei langt undan. Sérstök dómnefnd valdi Hilmir Kristjánsson mann leiksins en hann skilaði tröllatvennu, 25 stig, 16 fráköst, 2 varin skot og 2 stolnir boltar. Næstir á blað hjá Grindvíkingum voru Aðalsteinn Pétursson með 14 stig og 4 fráköst og Aron Friðriksson með 7 stig og 6 fráköst. Í liði Keflavíkur átti Guðmundur Ólafsson virkilega góðan leik með 18 stig og 7 fráköst en næstir á blað voru Arnþór Ingvason með 12 stig og 7 fráköst og Sigurþór Sigurþórsson með 10 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar. Grindavík hafði í lokin 6 stiga sigur, 60-54 og eru vel að bikarmeistaratitlinum komnir.
Myndir og umfjöllun: Karfan.is