Suðurnesjaliðin höfðu sætaskipti
Keflvíkingar sóttu sigur í Grindavík
Keflvíkingar unnu sterkan útisigur á Grindvíkingum þegar liðin áttust við í fyrsta leik ársins í Domino's deild kvenna í körfubolta í kvöld. Grindvíkingar höfðu mest náð 18 stiga forystu í fyrri hálfleik og leiddu með 11 stigum í hálfleik. Keflvíkingar mættu ákveðnar til leiks í seinni hálfleik og unnu upp muninn og gott betur strax í þriðja leikhluta. Þær náðu svo að halda út og landa fjögurra stiga sigri 76:80. Með sigrinum komust Keflvíkingar upp fyrir Grindvíkinga og sitja núna í þriðja sæti á meðan Grindvíkingar færa sig í fjórða.
Fyrrum leikmaður Grindavíkur, Guðlaug Björt Júlíusdóttir, skoraði 16 stig og tók 10 fráköst gegn gömlu félögunum. Melissa Zorning skoraði 20 stig hjá Keflvíkingum og Sandra Lind skoraði 16.
Hjá heimakonum voru systurnar Petrúnella og Hrund stigahæstar með 17 og 16 stig á meðan Sigrún Sjöfn var með 15.