Suðurnesjaliðin geta komist áfram í kvöld
Keflvíkingar ekki upp úr 8-liða úrslitum síðan árið 2011
Úrslitakeppni karla í körfubolta rúllar áfram í kvöld með tveimur rosalegum leikjum þar sem Suðurnesjaliðin Grindavík og Keflavík geta tryggt sér sæti í undanúrslitum. Keflvíkingar hafa ekki farið upp úr 8-liða úrslitum síðan árið 2011, en Grindvíkingar ekki síðan 2014.
Í Sláturhúsinu í Keflavík taka særðir heimamenn á móti kokhraustum Tindastólsmönnum sem tóku Keflvíkinga í bakaríkið í Síkinu á miðvikudag. Keflvíkingar leiða 2-1 í einvíginu og geta með sigri komist í undanúrslit í fyrsta sinn í sex ár. Síðast komust Keflvíkingar upp úr 8-liða úrslitum eftir 2-1 sigur á ÍR.
2012 töpuðu Keflvíkingar 2-1 gegn Stjörnunni í 8-liða
2013 töpuðu Keflvíkingar 2-1 gegn Stjörnunni í 8-liða
2014 töpuðu Keflvíkingar 3-0 gegn Stjörnunni í 8-liða
2015 töpuðu Keflvíkingar 3-2 gegn Haukum í 8-liða
2016 töpuðu Keflvíkingar 3-1 gegn Tindastól í 8-liða
Í Þorlákshöfn mæta Grindvíkingar í heimsókn en þeir leiða 2-1 í einvíginu og geta því tryggt sig áfram með sigri. Liðin hafa hingað til sigrað alla heimaleikina í rimmunni og því spurning hvort Grindvíkingum takist að láta af þeirri venju í kvöld. Grindvíkingar urðu Íslandsmeistarar árið 2012 og 2013 og fóru alla leið í úrslit 2014 en töpuðu gegn KR. Þreföldu meistararnir hafa svo orðið á vegi Grindvíkinga síðustu tvö ár líka.
2012 unnu Grindvíkingar 3-1 gegn Þór Þ. í úrslitum
2013 unnu Grindvíkingar 3-2 gegn Stjörnunni í úrslitum
2014 töpuðu Grindvíkingar 3-1 gegn KR í úrslitum
2015 töpuðu Grindvíkingar 3-0 gegn KR í 8-liða
2016 töpuðu Grindvíkingar 3-0 gegn KR í 8-liða
Báðir leikirnir hefjast klukkan 19:15