Suðurnesjaliðin freista þess að komast í úrslit
Undanúrslit karla hefjast í kvöld - Keflvíkingar í Vesturbæinn
Suðurnesjaliðin Grindavík og Keflavík eru í eldlínunni í kvöld og á morgun þegar undanúrslit karla í körfubolta hefjast. Keflvíkingar eru komnir í undanúrslit í Domino’s deild karla í fyrsta sinn síðan árið 2011. Keflvíkingar virkuðu sannfærandi gegn Stólunum, ef frá er talinn einn útileikur. Grindvíkingar eru sömuleiðis komnir í undanúrslit eftir oddaleik og háspennu gegn Þórsurum og munu þar berjast við Stjörnumenn.
Hjá Keflvíkingum tekur við rimma gegn Íslandsmeisturum síðustu þriggja ára, núverandi bikarmeisturum og deildarmeisturum, sjálfum KR-ingum. KR hafði öruggan 26 stiga sigur í fyrri leik liðanna á tímabilinu í TM-höllinni. Í Vesturbænum var öllu meiri spenna en þar hafði KR þó tveggja stiga sigur. Það verður því við ramman reip að draga en KR-ingar eru úthvíldir eftir að hafa sópað Akureyringum úr keppni.
Grindvíkingar fóru síðast upp úr átta liða úrslitum árið 2014 þegar þeir léku til úrslita gegn KR. Stjarnan hafði betur í báðum rimmum liðanna í vetur. Á heimavelli höfðu Garðbæingar 11 stiga sigur og í Mustad höllinni var munurinn 19 stig á liðunum. Stjörnumenn með Hlyn Bærings í fararbroddi, sendu sjóðheita ÍR-inga í sumarfrí án teljandi erfiðleika og ljóst að þeir ætla sér stóra hluti.
Bæði Suðurnesjaliðin byrja á útivelli - Keflvíkingar í kvöld, 30. mars í Vesturbænum og Grindvíkingar 31. mars í Garðabæ.