Suðurnesjaliðin fara vel af stað í körfunni
Keppni er farin af stað í körfuknattleik og fóru fram leikir í sextán liða úrslitum VÍS bikarkeppni karla og kvenna í vikunni. Vanalega hafa lið verið að spila æfingaleiki á þessum tíma en vegna Covid var bikarkeppnin slegin af í vetur og því verður bikarinn spilaður í september og bikarmeistari 2021 krýndur.
Það var eðlilega haustbragur á leikjum liðanna enda eru þau enn að slípa sig til og ekki búin að ná eðlilegum takti í leikinn.
Á mánudag mættust lið Grindavíkur og Njarðvíkur í bikarkeppni kvenna þar sem Njarðvíkingar mættu talsvert betur undirbúnar til leiks. Grindvíkingar áttu í erfiðleikum með að finna leið fram hjá öflugum varnarleik Njarðvíkinga sem gaf heimaliðinu fá færi á sér og hafði að lokum góðan útisigur, 58:71. Njarðvík er því komið áfram í átta liða úrslit.
Í gær fóru fram leikir hjá körlunum og komust öll Suðurnesjaliðin áfram í átta liða úrslit. Keflvíkingar léku á alls oddi gegn Hetti á Egilsstöðum og unnu auðveldan 63:110 útisigur. Njarðvíkingar tóku á móti Val í Njarðtaksgryfjunni og höfðu betur þar sem Benedikt Guðmundsson stýrði liðinu í fyrsta sinn en hann tók við þjálfun Njarðvíkinga af Einari Árna Jóhannssyni eftir síðasta tímabil. Leikurinn endaði 97:86 fyrir Njarðvík. Að lokur tók Grindavík á móti Breiðabliki í Grindavík og það var boðið upp á sannkallaðan háspennuleik í HS Orkuhöllinni. Leikurinn fór í framlengingu þar sem heimamenn höfðu að lokum betur, 118:112.
VÍS bikarkeppni karla 2021 (sextán liða):
Höttur - Keflavík 63:110 (19:33, 14:23, 10:27, 20:27)
Keflavík: David Okeke 29/12 fráköst, Dominykas Milka 24/6 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 13/5 fráköst/9 stoðsendingar, Jaka Brodnik 13/6 fráköst, Valur Orri Valsson 8/5 fráköst, Magnús Pétursson 8, Þröstur Leó Jóhannsson 6, Ágúst Orrason 5, Halldór Garðar Hermannsson 4/5 stoðsendingar.
Njarðvík - Valur 97:86 (25:27, 23:30, 29:16, 20:13)
Njarðvík: Fotios Lampropoulos 23/13 fráköst/4 varin skot, Mario Matasovic 20/9 fráköst/6 stoðsendingar, Dedrick Deon Basile 18/4 fráköst/6 stoðsendingar, Veigar Páll Alexandersson 13, Nicolas Richotti 11, Logi Gunnarsson 9, Ólafur Helgi Jónsson 3, Snjólfur Marel Stefánsson 0/4 fráköst, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Bergvin Einir Stefánsson 0, Sigurbergur Ísaksson 0, Elías Bjarki Pálsson 0.
Grindavík - Breiðablik 118:112 (22:14, 27:40, 37:21, 16:27, 16:10)
Grindavík: Ivan Aurrecoechea Alcolado 30/23 fráköst, Ólafur Ólafsson 27/12 fráköst, Malik Ammon Benlevi 15, Dagur Kár Jónsson 14/11 stoðsendingar, Kristinn Pálsson 12/7 stoðsendingar, Bragi Guðmundsson 11, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 4/5 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 3, Hilmir Kristjánsson 2, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0.
VÍS bikarkeppni kvenna 2021 (sextán liða):
Grindavík - Njarðvík 58:71 (11:21, 8:17, 21:19, 18:14)
Njarðvíkurstúlkur byrjuðu leikinn af krafti og náðu strax góðri forystu. Þær leiddu 11:21 eftir fyrsta leikhluta og voru búnar að auka forystuna í nítján stig í hálfleik 21:39.
Njarðvík náði mest 26 stiga forskoti í seinni hálfleik en Grindvíkingar neituðu að gefast upp og náðu að minnka muninn áður en leiktíminn var úti.
Atkvæðamestar í liði Njarðvíkur voru þær Lavina Joao Gomes De Silva (sextán stig og tíu fráköst), Diane Diene (fimmtán stig, tíu fráköst og ein stoðsending) og Aliyah A’taeya Collier (fjórtán stig, ellefu fráköst og átta stoðsendingar). Í liði Grindavíkur var Hulda Björk Ólafsdóttir atvæðamest með þrettán stig, tvö fráköst og eina stoðsendingu.