Suðurnesjaliðin byrja vel í 2. deild karla
Þrjú Suðurnesjalið leika í 2. deild karla í knattspyrnu í ár, Þróttur, Njarðvík og Reynir.
Öll léku sinn fyrsta leik í gær þar sem Reynismenn unnu góðan sigur á Haukum á Ásvöllum en í Njarðvík mættust grannarnir Njarðvík og Þróttur.
Haukar - Reynir 0:2
Haukar byrjuðu leikinn gegn nýliðum Reynis af krafti en Reynismenn mættu ákveðnir til leiks í Hafnarfirði í gær. Vörn Reynis var vel skipulögð og stóð af sér sóknir Hauka þótt stundum mætti litlu muna en Rúnar Gissurarson varði vel þegar á þurfti að halda.
Eftir því sem leið á hálfleikinn dofnaði yfir leik heimamanna og Reynismenn komust betur inn í leikinn. Bæði liði fengu sín færi en staðan var markalaus í hálfleik.
Haukar byrjuðu seinni hálfleik eins og þann fyrri, þeir sóttu stíft og Rúnar fékk tækifæri til að sýna færni sína á milli stanganna. Reynismenn tóku fljótlega að vinna sig inn í leikinn og á 70. mínútu kom fyrirliðinn, Strahinja Pajic, þeim yfir þegar hann stýrði boltanum í netið eftir skot úr aukaspyrnu.
Gamli markahrókurinn Magnús Sverrir Þorsteinsson var nýkominn inn á þegar mark Reynismanna kom. Magnús er skeinuhættur í sókninnni og hann var nálægt því að skora á 77. mínútu en skot hans fór naumlega framhjá markinu.
Sókn Hauka þyngdist verulega í lokin en Reynismenn gáfu allt í varnarleikinn. Rétt fyrir leikslok fengu Haukar horn, ekkert varð úr því og Reynismenn brunuðu í sókn þar sem brotið var á Kristófer Páli Viðarssyni og víti dæmt. Magnús Þórir Matthíasson tók vítið og gulltryggði Reyni sigur (88'). 0:2 lokatölur og Reynir komið með þrjú stig.
Njarðvík - Þróttur 3:3
Það var Suðurnesjaslagur af betri gerðinni þegar Þróttur sótti Njarðvíkinga heim á Rafholtsvöllinn í Njarðvík.
Gestirnir byrjuðu betur en náðu þó ekki að brjóta ísinn. Það voru Njarðvíkingar sem voru fyrri til að skora og þar var að verki skoski markvarðahrelliirinn Kenneth Hogg þegar hann náði að setja boltann fyrir sig og skora eftir hornspyrnu Njarðvíkinga og smá darraðadans í teig Þróttar (17').
Bæði lið áttu efnilegar sóknir og um fimm mínútum fyrir leikhlé átti fyrirliðinn Marc Mcausland skalla í stöng. Njarðvíkingar fóru með eins marks forskot inn í hálfleikinn.
Þróttur var nálægt því að jafna í upphafi síðari hálfleiks en Robert Blakala varði vel í marki Njarðvíkur. Njarðvíkingar bættu við öðru marki á 63. mínútu, þar var að verki Zoran Plazonic og staðan orðin 2:0.
Viktor Smári Segatta kom boltanum í netið fyrir Þrótt á 69. mínútu en var dæmdur rangstæður. Þróttarar náðu að minnka muninn á 75. mínútu þegar Ragnar Þór Gunnarsson skoraði eftir sendingu frá Sigurði Gísla Snorrasyni.
Njarðvíkingar voru þó ekki hættir og Kenneth Hogg skoraði annað mark sitt í leiknum aðeins þremur mínútum síðar (78') og jók muninn aftur í tvö mörk.
Rubén Luzanco Ibancos minnkaði muninn í eitt mark fimm mínútum fyrir leikslok (85') og á 88. mínútu jafna Þróttarar leikinn þegar Hubert Rafal Kotus skallaði fyrirgjöf Sigurðar Gísla í netið. 3:3 jafntefli niðurstaðan í mögnuðum leik liðanna sem er spáð tveimur efstu sætunum í deildinni.
Páll Orri Pálsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Rafholtsvellinum í gær og tók meðfylgjandi myndir.