Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Suðurnesjaliðin ætla sér sigur í kvöld
Föstudagur 22. júní 2007 kl. 11:24

Suðurnesjaliðin ætla sér sigur í kvöld

Heil umferð fer fram í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld og verða tveir leikir hér á Suðurnesjum. Njarðvíkinga fá Fjölni í heimsókn á Keflavíkurvöll og Grindvíkingar taka á móti Þrótti Reykjavík í toppslag í Grindavík. Reynir Sandgerði mætir KA á Akureyri en sá leikur hefst kl. 19:15 en aðrir leikir umferðarinnar hefjast kl. 20:00. Víkurfréttir tóku púlsinn á nokkrum liðsmönnum Suðurnesjaliðanna fyrir kvöldið og þeir höfðu þetta að segja um leiki kvöldsins:

 

Ray Anthony Jónsson, Grindavík

Grindavík-Þróttur R. kl. 20:00

Þetta verður erfitt í kvöld því Þróttur er á góðri siglingu. Vonandi verðum við nægilega sterkir á heimavellinum til þess að vinna þá. Þetta hefur gengið vonum framar hjá okkur í sumar og við erum enn taplausir og ætlum okkur bara að halda áfram að vinna og berjast vel.

Liðið er í góðu líkamlegu standi og segja má að Milan sé ábyrgur fyrir því að mórallinn í hópnum sé breyttur og betri en t.d. í fyrra. Við þekkjum Milan vel og hann vill að við höldum boltanum innan liðsins og maður sér það bara að nú er meiri færsla á liðinu og það eru allir að vinna saman.

 

Rafn Markús Vilbergsson, Njarðvík

Njarðvík-Fjölnir kl. 20:00

Jafnteflin og töpin eru orðin frekar svekkjandi og svo höfum við enn ekki spilað heimaleik í okkar skilningi. Við lékum vel gegn Fjölni í bikarnum og svo í næsta leik þá fengum við skell gegn Þrótti. Nú er kominn tími á sigur hjá okkur og mórallinn í hópnum er góður og það gengur vel á æfingum þannig að það ætti ekkert að standa í vegi fyrir því að við náum í okkar fyrsta sigur.

Við sköpum okkar eigin heppni í þessu og því miður höfum við ekki átt nægilega góðu gengi að fagna við mark andstæðinganna en við verðum bara að þjappa okkur saman. Áhorfendur mega eiga von á sigri í kvöld og við stefnum að því að halda markinu hreinu, það er kominn tími á það.

 

Hjörtur Fjeldsted, Reynir Sandgerði

KA-Reynir kl. 19:15

Það liggur í augum uppi að við verðum að halda hreinu gegn KA þar sem þeir hafa aðeins gert tvö mörk í sumar. Ég vil meina að það sé einbeitingarleysi sem hefur verið að trufla okkur í síðustu leikjum og svo töpuðum við tvívegis stórt gegn Þór og svo Stjörnunni. Nú er bara verið að vinna í því að bæta sjálfstraustið.

Það var mikill liðsstyrkur fyrir okkur að fá Stefán Örn og hann byrjar inn á í fremstu víglínu í kvöld og við bindum miklar vonir við hann. Stefán er markaskorari og okkur hefur vantað svoleiðis leikmann í okkar raðir. Við erum ekki á Norðurleið til þess að halda jöfnu.

 

Staðan í deildinni

 

VF-mynd/ [email protected] - Frá bikarleik Fjölnis og Njarðvíkur á dögunum þar sem Fjölnir hafði 2-1 sigur.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024