Suðurnesjalið síðast í úrslitum árið 2003
Keflvíkingar freista þess að jafna metin gegn KR í kvöld
Keflvíkingar berjast fyrir lífi sínu í úrslitakeppninni í körfuboltanum í kvöld þegar fjórði leikurinn gegn KR í undanúrslitum Domino's deildarinnar fer fram að Sunnubraut. Staðan í einvíginu er 2-1 KR í vil og með sigri fara KR-ingar í úrslit fjórða árið í röð en þeir eru Íslandsmeistarar síðustu þriggja ára.
Keflvíkingar hafa ekki farið í úrslit síðan árið 2010 þegar þeir töpuðu 2-3 gegn Snæfell. Komist Keflvíkingar í úrslit mæta þeir Grindvíkingum sem fóru frekar auðveldlega með Stjörnuna. Það yrði í fyrsta skipti síðan 2003 sem tvö Suðurnesjalið mætast í úrslitum. Þá mættust einmitt Grindavík og Keflavík þar sem strákarnir úr Bítlabænum höfðu sópuðu Grindvíkingum 3-0.
Edmund Saunders hjá Keflavík var besti leikmaður lokaúrslitanna 2003 með 33,3 stig að meðaltali auk þess að taka 11,3 fráköst, senda 5,7 stoðsendingar og verja 2,7 skot að meðaltali. Saunders var einnig með frábæra nýtingu en hann nýtti 42 af 61 skoti sínu í leikjum þremur og var með 68,9% skotnýtingu í einvíginu. Damon Johnson skilaði einnig stórum tölum en hann skoraði 28,3 stig, gaf 8,7 stoðsendingar, tók 6,3 fráköst og varði 3 skot að meðaltali í leikjunum þremur. Þá var Darrel Lewis hjá Grindavík með 33 stig, 11 fráköst og 7,7 stoðsendingar að meðaltali.