Íþróttir

Suðurnesjabæjarslagur
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 29. desember 2023 kl. 06:07

Suðurnesjabæjarslagur

Í fyrsta skipti í tippleik Víkurfrétta í vetur, þurfti að útkljá úrslitin með spilastokki en þeir Jón Ásgeir Þorkelsson og áskorandi hans, Grétar Ólafur Hjartarson, voru hnífjafnir með átta leiki rétta og öll úrskurðartrixin í reglugerðarbókinni voru uppurin, fyrir utan að draga hæsta spilið. Grétar dró spaðadrottningu á móti tígulsexu Jóns sem þar með hefur þá lokið leik og er honum þakkað fyrir þátttökuna og aftur þakkað fyrir að eiga hugmyndina af því að endurvekja þennan lið.

Enginn Íslendingur náði þrettán réttum en alls náðu 69 tipparar í Skandinavíu að bæta tæpum sex milljónum inn á bankareikninginn sinn. Nítján íslenskir tipparar af 2009 náðu tólf réttum og fá í sinn hlut tæpar 47 þúsund krónur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Segja má að Suðurnesjabær hafi tvisvar sinnum farið á hvolf í sumar þegar Reynir og Víðir mættust á knattspyrnuvellinum. Þar sem Grétar Sandgerðingur vann um síðustu helgi gefst tækifæri á að ýfa ríginn upp en Garðbúinn og Víðiskonan Guðlaug Sigurðardóttir, eða Gullý eins og hún er jafnan kölluð, verður næsti áskorandi.

Gullý var um tíma í stjórn KSÍ og hefur oft verið með puttana í starfi Víðis, henni líst vel á að rifja upp tipptaktana. „Ég hef alltaf haldið með Liverpool og er vongóð um að við tökum titilinn í ár, Klopparinn er með þetta. Ég var ung þegar ég byrjaði að fylgjast með fótbolta og þeim enska, pabbi heldur með Liverpool svo það var fljótt ljóst með hverjum ég myndi halda. Við hjónin eigum þrjá syni, sá elsti er Pool-ari en þar sem pabbinn er Man Utd-aðdáandi, náði hann þeim tveimur yngri. Ég hlakka til slagsins við Grétar og kannski athyglisvert að þetta er bæði slagur milli Víðis og Reynis og Liverpool og Man Utd. Ég tippaði talsvert hér áður fyrr en hef ekki verið dugleg að undanförnu en eigum við ekki að segja að þetta hreyfi við mér og ég byrji aftur. Þar sem Víðir er stærra félag en Reynir og þar sem Liverpool er stærri klúbbur en Manchester United hef ég fulla trú á að ég muni hafa betur á móti Grétari,“ sagði Gullý.

Grétar segir að alltaf sé gaman þegar Reynir og Víðir mætist, sama hvort það sé inni á knattspyrnuvellinum eða í svona tippleik. „Víðir er og verður alltaf litli bróðir Reynis, alveg eins og Liverpool mun alltaf verði minni klúbbur en Manchester United, það þarf ekkert að rökræða það neitt frekar. Út frá þessum staðreyndum hef ég fulla trú á að ég muni hafa betur á laugardaginn. Ég fylgdist spenntur með þegar við Jón Ásgeir mættumst, mér sýndist ég hafa unnið hann en svo breyttust ein úrslitin og því þurfti að kasta upp á þau. Það mátti skera andrúmsloftið með brauðhníf, svo mikil var spennan þegar við Jón mættum á skrifstofu Víkurfrétta og drógum úr spilastokki. Mér leið nánast eins og ég væri að fara taka vítaspyrnu undir lokin í jöfnum leik, tilfinningin þegar ég sá spaðadrottninguna var á við að setja tuðruna upp í skeytin. Um leið og ég sá þá svartklæddu, vissi ég að sigurinn væri minn því Jón var ekki líklegur til að draga svo hátt spil,“ sagði Grétar.