Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 27. september 2002 kl. 08:46

Suðurnesin á iði - Allir með !

Með 90 ára afmælisverkefni ÍSÍ að leiðarljósi "ÍSLAND Á IÐI" þar sem markmiðið er að hvetja landsmenn á öllum aldri til aukinnar hreyfingar, verður sett af stað verkefnið “Suðurnesin á iði !" þar sem öllum lesendum Víkurfrétta býðst að taka þátt í. Að verkefninu standa þrír íþróttakennarar þau Kristjana H. Gunnarsdóttir, Bergþór Magnússon og Guðríður Brynjarsdóttir, en þau eru öll að nema íþróttafræði við Kennaraháskóla Íslands.
Verkefnið stendur í 6 vikur og felst í því að fá sem flesta Suðurnesjamenn til að ganga/skokka/hlaupa 2,5 km nokkrum sinnum í viku.Þú fylgist vel með í Víkurfréttum í hverri viku, þar sem þú aflar þér fróðleik og vitneskju um hvernig þú ferð að! Boðið verður upp á þolmælingar í upphafi, eftir 3 vikur og í lok 6 vikna, öllum að kostnaðarlausu. Hver og einn setur sér sitt eigið markmið í upphafi og fer síðan af stað. Þó er ráðlegt fyrir þá sem eru 40 ára og eldri og hafa ekki stundað reglulega líkamsrækt, eiga við hjartveiki að stríða, of háan blóðþrýsting, insúlínháða sykursýki, eða finnur fyrir ákafri mæði við létta áreynslu, að fara í læknisskoðun áður en haldið er af stað.
Mikilvægt er að ofgera sér ekki, hlusta þarf á sinn eigin líkama og vinna út frá því.
Þegar þú hefur tekið þá ákvörðun um að vera með í þessar 6 vikur, getur þú komið við í næstu sundlaug og fengið skráningarspjald, þar sem þú heldur utan um mætingar þínar. Gott ráð er að hengja spjaldið á ískápinn, þar sem aðrir í fjölskyldunni eru gerðir meðvirkir þátttakendur, þannig að allir geti fylgst með hvernig gengur. Það er í þínu valdi hvort þú velur að taka þátt í þolmælingum, en ítreka má að það virkar mjög hvetjandi að hafa eitthvað til að stefna að. Þolmælingin fer þannig fram að þú gengur 2,0 km. á tíma, út frá tímanum færðu uppgefna þoltölu sem segir til um hvernig þolástand þitt er. Í hvert sinn sem þú kemur í þolmælingu færðu óvæntan glaðning. Í lok þessara 6 vikna getur þú skilað inn skráningarspjaldi þínu til umsjónaraðila, þá fer nafn þitt í pott sem dregið verður úr, og hljóta þeir heppnu hrausta vinninga í boði líkamsræktarstöðvarinnar Lífsstíls og K-sports.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að þjóðin er að fitna og offita og hreyfingarleysi eru vaxandi vandamál, því viljum við hvetja Suðurnesjamenn til að taka þátt í baráttunni við letidrauginn ! Verkefnið er ætlað fólki á öllum aldri í mismunandi ásigkomulagi. Tilvalið er að fá alla fjölskylduna með, þ.e. foreldrar sýni börnum sínum gott fordæmi og taki þátt og hvetji börnin áfram. Alþjóðalega heilbrigðisstofnunin hefur sett það markmið að fólk stundi þolþjálfun minnst þrisvar í viku, í 20 mín. í senn, þannig að líkaminn hitni og verði móður. En hafa skal hugfast að margt smátt gerir eitt stórt ! Athugaðu vel að það er aldrei of seint að byrja ! Minnispunktar vikunnar !
* Skráðu niður markmið þitt !
* Náðu þér í skráningarspjald í næstu sundlaug
* Talaðu við lækni ef áður upptalin einkenni eiga við þig !
* Mættu í þolpróf.Sunnud. 29.sept. Kl. 16.30 í Reykjaneshöllina !
* Fáðu æfingaráætlun við hæfi þér til stuðnings, þegar þú mætir í mælingu !
* Byrjaðu að æfa, en farðu rólega af stað.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024