Suðurnejaliðin slökust á heimavelli
Tölfræði Keflvíkinga og Grindvíkinga í Pepsi-deildinni skoðuð.
Þegar staðan í Pepsi-deild karla í knattspyrnu er skoðuð kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós. Staða Suðurnesjaliðanna, Keflavíkur og Grindavíkur er miðjöfn en þó eiga liðin töluvert sameiginlegt.
Grindvíkingar eru á botni deildarinar í dag með 10 stig en Keflvíkingar eru í 8. sæti með 24 stig.
Fjórar umferðir eru eftir í deildinni og eiga bæði Suðurnesjaliðin eftir erfiða leiki.
Grindvíkingar þurfa helst öll 12 stigin sem eftir eru í pottinum, en þeir eiga eftir að mæta: ÍBV (Ú), KR (H), Val (Ú), og Fylki (H). Öll þessi lið eru töluvert langt fyrir ofan Grindvíkinga í töflunni og verða líklega með í baráttunni um Evrópusæti. Svo róðurinn verður erfiður fyrir þá gulu.
Keflvíkingar eiga svo eftir að spila tvo svokallaða sex stiga leiki ef liðið ætlar sér ekki að sogast með í fallbaráttuna. Leikir Keflvíkinga: Fram (H), Selfoss (Ú), Breiðablik (H), KR (Ú). Sex stiga munur er á Keflvíkingum og Selfyssingum sem sitja í fallsætinu núna.
Skora minna á heimavelli
Ef árangur liðanna er skoðaður kemur svo í ljós að Keflvíkingar og Grindvíkingar eru með versta árangur allra liða deildarinnar á heimavelli. Grindvíkingar eru slakastir á heimavelli með fimm stig úr níu leikjum. Aðeins hefur unnist einn leikur, gegn Val, og tvisvar hafa Grindvíkingar gert jafntefli. Grindvíkingar eru með nákvæmlega sama árangur á útivelli.
Keflvíkingar sem er með næstslakasta árangurinn á heimavelli, hafa aðeins nælt sér í átta stig á Nettóvellinum í sumar í níu leikjum og aðeins hafa komið tveir sigrar í hús, gegn ÍBV og Grindavík. Aðeins eitt lið hefur skorað minna en Suðurnesjaliðin á heimavelli í sumar en það er Breiðablik sem aðeins hefur skorað sjö mörk í níu heimaleikjum. Keflavík og Grindavík hafa skorað 10 mörk í heimaleikjum sínum í suma.
Þegar kemur að útileikjum þá eru Keflvíkingar að skora næstmest allra liða deildarinnar. Þeir hafa skorað 17 mörk þar líkt og topplið FH-inga en Stjörnumenn eru þar sér á báti með 20 mörk í níu leikjum. Grindvíkingar skora svo aftur á móti 15 mörk á útivelli en aðeins 10 mörk hafa verið skoruð á Grindavíkurvelli af heimamönnum.
Einnig er athyglisvert að Keflvíkingar hafa hlotið helmingi fleiri stig á útivelli en heima, eða 16 gegn átta og er liðið með þriðja besta árangur liða deildarinnar á útivelli.
Markahæstu leikmenn liðanna eru þeir Guðmundur Steinarsson hjá Keflvíkingum en hann hefur skorað sjö mörk og Pape Mamadou Faye sem hefur skorað sex sinnum fyrir Grindavík.