Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

„Stuðningurinn mun skipta okkur miklu máli í sumar“
Mynd: UMFG
Föstudagur 4. maí 2018 kl. 07:00

„Stuðningurinn mun skipta okkur miklu máli í sumar“

- „Hópurinn er ungur og hefur spilamennskan verið vaxandi,“ segir Ray Anthony, þjálfari kvennaliðs Grindavíkur í knattspyrnu

Ray Anthony Jónssson tók við kvennaliði Grindavíkur í knattspyrnu í vetur og er hann á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari liðsins. Margar af reynsluboltum Grindavíkur lögðu skóna á hilluna eftir síðasta tímabil og á ungt og efnilegt lið Grindavíkur ærið verkefni fyrir höndum í Pepsi- deildinni í sumar en liðið náði sjöunda sæti í deildinni í fyrra og hafa spekingar hafa spáð þeim falli í sumar. Ray svaraði nokkrum spurningum fyrir Víkurfréttir um sumarið, undirbúningstímabilið og leikmennina.

Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið?
Við höfum verið að æfa vel í vetur og byrjuðum að æfa um miðjan nóvember, þær hafa verið duglegar en fáar. Úrslitin hafa alls ekki verið okkur í hag í æfingarleikjunum en það hafa samt verið margir ljósir punktar í þessum leikjum hjá okkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig er staðan á hópnum?
Staðan á hópnum er fín, hópurinn er ungur eins og ég sagði og hefur spilamennskan verið vaxandi. Þegar erlendu leikmennirnir okkar koma þá verðum við tilbúin í þetta verkefni og verður gaman að sjá hversu langt ungu stelpurnar eru komnar eftir fínan vetur.

Hvert er markmið sumarsins?
Markmiðið er að halda okkur í deildinni og reyna að byggja upp góðan kjarna til framtíðar. Þegar það tekst eftir nokkur ár, þá verður kannski markmiðið okkar eitthvað stærra.

Ætlið þið að fá fleiri leikmenn áður en leikmannaglugginn lokar?
Já við ætlum að reyna finna einn til tvo leikmenn til að styrkja hópinn en ef það tekst ekki þá eru þessar ungu og efnilegu stelpur alveg nógu góðar til að takast á við þetta.

Ykkur er spáð neðarlega og jafnvel falli í deildinni, hvað finnst ykkur um það?
Okkur er spáð neðarlega og er það alveg skiljanlegt held ég, við misstum marga reynda leikmenn frá síðasta tímabili og eftir eru ungar og efnilegar stelpur sem eiga eftir að standa sig í sumar.

Er einhver leikmaður sem þú vilt nefna sem hefur sýnt framfarir í vetur eða bindur miklar vonir við?
Ég get ekki tekið eina út því þær verða nokkrar sem eiga eftir að láta ljós sitt skína, í bland við erlendu leikmennina sem eru bara nokkrum árum eldri en þær.

Hver er leiðtoginn í hópnum og heldur leikmönnum saman?
Við erum með Ísabel sem gerir það og er hún jafnframt fyrirliðin okkur og svo er Viviane að koma sterk inn.

Skiptir stuðningurinn máli?
Stuðningurinn mun skipta okkur miklu máli í sumar. Að fá fleiri til að koma á völlinn og styðja við bakið á okkur ætti að gera lið okkar ennþá betri.

Hver er ykkar styrkleiki / veikleiki?
Styrkleikinn okkar mun vera samvinnan, við erum öll í þessu saman og ef við náum að virkja allar sem eru í þessu 100% á það eftir að fleyta okkur langt.
Veikleikarnir verða kannski að við erum ekki með nógu margra eldri  og reynslumikla leikmenn en ég held að það eigi ekkert eftir að hrjá okkur of mikið.