Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Strákarnir fjölmenna í fimleika
Fimmtudagur 27. janúar 2011 kl. 17:46

Strákarnir fjölmenna í fimleika

Elstu stelpurnar hjá Fimleikadeild Keflavíkur standa fyrir opinni fimleikaæfingu fyrir stráka í Fimleikaakademíunni. Æfingin verður 28. janúar frá kl. 20:30 til 22:00 og er þátttökugjald litlar 500 kr. sem er ekki hátt verð fyrir að prófa flottasta fimleikahús á landinu. Aðeins komast 30 strákar að og er þegar orðið fullt á æfinguna.

Æfingin er opin strákum fæddum 1996 og fyrr en aðeins tveir strákar æfa nú hjá félaginu á þessum aldri. „Þetta er góð leið til að fá stráka til að prófa þessa íþrótt en okkur hefur skort stráka á þessum aldri í félagið,“ sagði Selma Kristín Ólafsdóttir, ein af stelpunum sem halda þessa æfingu. En hvernig kom þessi hugmynd? „Við vorum með kærasta- og vinaæfingu í vetur og þá kom þessi hugmynd upp þar sem mikið af strákunum skemmtu sér konunglega. Svo samtvinnaðist þetta fjáröflun hjá félaginu en við stefnum á æfingaferð á næstunni svo þetta er bara jákvætt.“

Fullt er á fyrstu æfinguna og voru viðbrögðin góð hjá strákunum. Það er ljóst að nú þurfa strákarnir að sýna hvað í þeim býr en stelpurnar stefna á fleiri æfingar. „Þetta er bara byrjunin en út af mikilli eftirspurn ætlum við að halda þessu áfram og hafa þessar föstudagsæfingar fyrir strákana á meðan þeir mæta,“ sagði Selma Kristín.

[email protected]
Mynd: Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024