Stórtap fyrir FH í Keflavík
Vængbrotnir Keflvíkingar máttu þola stórtap gegn FH á HS Orku-vellinum í Keflavík í dag í 18. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu. Eftir að Keflavík missti mann af velli undir lok leiks opnuðust flóðgáttir og áður en flautað var til leiksloka höfðu gestirnir úr Hafnarfirði skorað fimm mörk.
Keflvíkingar byrjuðu leikinn vel og sóttu á mark FH án þess þó að skapa dauðafæri. Það stefndi allt í markalausan fyrri hálfleik en á síðustu andartökum fyrri hálfleiks skoruðu gestirnir þegar Baldur Logi Guðlaugsson setti knöttinn fram hjá Sindra í marki Keflavíkur.
Það voru aðeins liðnar átta mínútur af síðari hálfleik þegar FH-ingar höfðu bætt við forystuna. Þar var á ferðinni Jónatan Ingi Jónsson með fyrsta af þremur mörkum sínum í leiknum.
Hann var aftur á ferðinni þegar ein mínúta lifði af venjulegum leiktíma en þá voru Keflvíkingar orðnir einum færri eftir að Nacho Heras var rekinn af velli á 74. mínútu fyrir slá í höfuð Jóhanns Ægis Arnarssonar þegar Keflavík var að undirbúa aukaspyrnu rétt utan við vítateig FH.
Þetta þriðja mark FH virtist algjörlega slá Keflavík út af laginu því mínútu síðar var fjórða markið komið. Þar var á ferðinni Oliver Heiðarsson. Jónatan Ingi Jónsson innsiglaði svo sigur FH með sínu þriðja marki úr vítaspyrnu á 95. mínútu.
Lokatölur 5-0 fyrir FH sem er í 6. sæti með 25 stig en Keflavík er í 8. sæti með 17 stig. Liðin mætast svo aftur nk. miðvikudag á Kaplakrikavelli. Vonandi hafa Keflvíkingar þá hrist af sér hrollinn eftir ósigurinn í dag.