Stórtap á heimavelli
Keflvíkingum var snarlega kippt niður á jörðina eftir ágætis byrjun í Bestu deild kvenna í knattspyrnu þegar lið Breiðabliks vann sex marka sigur í gær. Fyrsta markið leit dagsins ljós strax á fyrstu mínútu og staðan átti aðeins eftir að versna eftir því sem leið á leikinn.
Gestirnir byrjuðu með látum og skoruðu mark í fyrstu sókninn. Blikar sóttu upp kantinn, vörn Keflavíkur náði ekki að hreinsa frá og fyrr en varði lá boltinn í netinu (1').
Fyrirliðinn Kristrún Ýr Holm bætti svo gráu ofan á svart þegar hún fékk boltann í sig og þaðan í eigið mark (23'). Blikar fengu svo vítaspyrnu skömmu síðar þegar Júlía Ruth Thasapong braut af sér og fékk að líta gula spjaldið fyrir vikið (26').
Staðan versnaði til muna nokkrum mínútum síðar þegar dómara leiksins fannst Júlía Ruth, sem var að leika sinn fyrsta leik með Keflavík, gefa andstæðingi sínum olnbogaskot. Dómarinn sýndi henni þar af leiðandi annað spjald og rak hana af velli (27'). Keflavík þremur mörkum undir og manni færri.
Áður en hálfleikurinn var allur náðu gestirnir fjögurra marka forystu þegar skot Blika hafnaði í þverslánni og barsta þaðan út í teiginn. Keflvíkingum tókst ekki að hreins og sóknarmaður Breiðabliks var fyrst til að ná frákastinu og senda knöttinn í autt markið (39').
Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri, gestirnir höfðu fullkomna stjórn á leiknum og fór hann að mestu fram á vallarhelmingi Keflvíkinga. Bikar skoruðu fimmta markið á 49. mínútu og bættu sjötta og síðasta markinu við með glæsilegu skoti rétt utan vítateigs sem hafnaði í fjærhorninu, óverjandi fyrir Vera Varis í marki Keflavíkur (64').
Lokatölur 0:6 og Keflavík er með fjögur stig eftir þrjá leiki, sigur, jafntefli og eitt tap. Keflvíkingar sitja í fimmta sæti sem stendur en enn á eftir að spila nokkra leiki í umferðinni.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók viðtal við Kristrúnu Ýr Holm, fyrirliða Keflavíkur, eftir leik og má sjá það í spilaranum hér að neðan. Myndasafn er neðst á síðunni.