Stórt og erfitt skref að taka
Sara Rún um körfuboltann og lífið í Buffalo
Sara Rún Hinriksdóttir er að upplifa drauminn í Bandaríkjunum. Þar spilar hún körfubolta og nemur líffræði í Buffalo borg í New York fylki. Bæði skólinn og fólkið er frábært að mati Söru en þó segir hún vissulega erfitt að aðlagast nýju umhverfi þar sem vinir og fjölskylda eru víðsfjarri.
Keflvíkingurinn Sara sem verður tvítug í sumar leikur með Canisius háskólanum í borginni. Hún fluttist utan fyrir fimm mánuðum síðan en hún segist ennþá vera að aðlagast lífinu á nýjum stað. „Þetta tekur allt sinn tíma. Lífið er svo allt öðruvísi en heima, ég er í allt annarri menningu. Það er mjög mikil heimavinna í skólanum og að vera í körfuboltaliði þar sem er mjög mikil samkeppni og metnaður er algjört æði,“ segir Sara. Í fyrra var hún valinn besti ungi leikmaður úrvalsdeildar kvenna á Íslandi en hún var einnig valin í úrvalslið deildarinnar.
Áskorun sem ekki var til staðar heima
Liðið hefur unnið átta leiki í vetur en tapað ellefu. Sara er með 2 fráköst að meðaltali og skorar um 5 stig í leik. Hún leikur um tíu mínútur í leik sem telst eðlilegt hjá leikmanni á fyrsta ári. Á hverjum degi eru æfingar í tvo tíma og svo lyftingar aukalega. Sara segir hverja æfingu vera skipulagða frá fyrstu til síðustu mínútu. „Mér hefur gengið vel. Það er smá skrítið að vera ekki í byrjunarliði og ekki spila yfir 30 mínútur eins og ég hef verið vön síðan ég byrjaði í körfubolta. Hérna úti er ég að fá áskorun, sem ég hef ekki verið að fá heima, ég þarf að hafa vel fyrir hlutunum.“
Heppin og þakklát
Þó svo að stíft sé æft og mikið á sig lagt þá er komið vel fram við íþróttafólk í skólanum. „Það sem er búið að koma mér mest á óvart er hversu mikið við stelpurnar í liðinu erum dekraðar, það er hugsað rosalega vel um okkur og passað að okkur vanti ekkert. Ef okkur vantar eitthvað þá er því reddað undir eins.“ Lífið er þó ekki bara dans á rósum í skólanum. Sara segir vissulega hafa verið erfitt að kveðja fólkið sitt heima. „Fyrir mér var þetta stórt skref, og að sumu leyti erfitt. Það er erfitt að því leytinu til að fara frá fjölskyldu og vinum og flytja í umhverfi þar sem þú þekkir engan. En það sem gerði skrefið auðveldara er það að ég er að upplifa drauminn minn, og markmiðin mín,“ segir Sara. Hún hefur þegar lært mikið í Bandaríkjunum og kann ákaflega vel við sig. „Já ég myndi segja það, þetta er algjört æði. Kennararnir, þjálfararnir og stelpurnar í liðinu eru frábær. Ég er að læra svo mikið af nýjum hlutum, þá ekki bara í körfuboltanum, heldur líka á öllum öðrum sviðum. Ég hugsa daglega hversu heppin ég er að fá þetta tækifæri og er mjög þakklát,“ segir þessi efnilega körfuboltakona að lokum.
„Hérna úti er ég að fá áskorun, sem ég hef ekki verið að fá heima, ég þarf að hafa vel fyrir hlutunum“
Í Buffaloborg búa um 260 þúsund íbúar. Borgin er mitt á milli kanadísku landamæranna og New York borgar. „Ég fýla Buffalo í botn. Hér er mikið um góða matsölustaði, krúttlegar götur og útitónleikar í boði. Ég bý á heimavist sem er á miðju háskólasvæðinu.“
Sara ásamt liðsfélaga sínum í Austin Texas á fótboltavelli Texas Longhorns liðsins.