Stórsigur RB á Stokkseyri
RB situr í efsta sæti A-riðils 5. deildar karla í knattspyrnu þegar ellefu umferðum er lokið. Hafnir eru í þriðja sæti, sjö stigum frá toppnum.
RB - Stokkseyri 5:0
Stokkseyri mætti í heimsókn í Reykjaneshöllina á mánudag og mætti toppliði RB. Gestirnir áttu ágætis byrjun og héldu vel í við RB en eftir hálftíma leik komust heimamenn yfir með marki frá Alexis Alexandrenne (32').
Staðan var 1:0 í hálfleik en snemma í seinni hálfleik tvöfaldaði Sævar Logi Jónsson forystu RB (50').
Við mótlætið má segja að leikur Stokkseyrar hafi hrunið og RB gerði út um leikinn með þremur mörkum til viðbótar (Alexis Alexandrenne 62', Muhama Hussein 67' og Reynir Þór Valsson 84').
Hörður Í. - Hafnir 1:1
Hafnamenn misstigu sig í Bolungarvík um helgina þar sem þeir gerðu jafntefli við Hörð sem er í neðri hluta riðilsins. Með jafnteflinu má segja að mikilvæg stig í toppbaráttunni hafi farið í súginn.
Hörður missti mann af velli með rautt spjald seint í fyrri hálfleik og eftir markalausan fyrri hálfleik komust Hafnarmenn yfir með marki frá Rafni Edgari Sigmarssyni (49').
Hafnarmenn náðu ekki að nýta sér liðsmuninn því heimamenn jöfnuðu á 69. mínútu. Undir lok leiksins var Hafnamanninum Markúsi Má Magnússyni vikið af velli og því jafnt í liðum síðustu mínúturnar.