Stórsigur Njarðvíkinga í baráttunni um bæinn
Það er óhætt að segja að úrslitin í leik Keflavíkur og Njarðvíkur í 32 liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu hafi verið óvænt. Njarðvíkingar hreinlega gengu frá grönnum sínum með því að skora fjögur mörk gegn einu marki Keflvíkinga og það er því annarrar deildarliðið sem fer áfram í sextán liða úrslit.
Stemmningin í Reykjanesbæ fyrir leikinn í kvöld var mögnuð. Stuðningsfólk liðanna hittist fyrir leik á sínum svæðum og hituðu upp fyrir átökin. Veðrið var eins og best verður á kosið og mættu 1.220 manns á HS Orkuvöllinn í blíðunni.
Leikurinn var rétt hafinn þegar Skotinn Kenneth Hogg kom gestunum yfir (3'). Þá tóku Njarðvíkingar innkast til móts við vítateik Keflvíkinga, innkastið var langt og fyrirliðinn Marc McAusland flikkaði honum áfram inn í markteig og eftir smá darraðadans hrökk boltinn fyrir fætur Hogg sem setti hann framhjá Sindra Kristni í marki Keflavíkur. Njarðvíkingar komnir óvænt með forystuna.
Gestirnir lágu til baka en voru hraðir fram hvenær sem færi gafst og Keflvíkingar áttu í tómum vandræðum með að finna leið fram hjá sterkri og skipulagri vörn Njarðvíkinga. Það voru svo Njarðvíkingar sem skoruðu aftur á 39. mínútu þegar þeir sóttu hratt upp hægri vænginn, Dani Hatakka féll við í kapphlaupi um boltann og eftirleikurinn því einfaldur hjá Njarðvík. Leikmaður Njarðvíkur kemst einn upp að endamörkum og sendir út í teiginn, fyrir fæturna á Magnús Þóri Matthíassyni sem skoraði með þéttu innanfótarskoti án þess að Sinidri Kristinn næði að koma vörnum við. Staðan orðin 0:2 og allt að verða vitlaust á pöllunum Njarðvíkurmegin.
Aðeins fjórum mínútum síðar náðu Keflvíkingar að svara þegar Patrik Johannesen fékk boltann í markteig Njarðvíkur. Johannesen náði ekki snúningnum til að komast í færi en féll við og dæmd vítaspyrna sem hann skoraði sjálfur úr (43').
Áður en blásið var til leikhlés var Njarðvíkingurinn Oumar Diouck nálægt því að auka forystuna á ný þegar hann fékk dauðafæri, skallaði fyrst í þverslánna og náði svo öðrum skalla sem Ivan Kaliuzhnyi náði að verða fyrir á marklínu. Keflvíkingar stálheppnir að vera aðeins einu marki undir, staðan 1:2 í hálfleik.
Seinni hálfleikur hélt áfram eins og sá fyrri, Njarðvík lá til baka en sótti hratt við hvert tækifæri. Keflvíkingar fundu ekki leiðina að marki gestanna og eftir því sem lengra leið á leikinn fór að bera á pirringi leikmanna og harkan jókst. Ekkert var gefið eftir og farið af fullum krafti í allar tæklingar og skallaeinvígi.
Á 62. mínútu stöðvaði dómarinn leikinn þar sem þrír leikmenn óvígir og héldu um höfuð sín eftir skallaeinvígi á miðjum vellinum. Tveir Njarðvíkingar stóðu upp fljótlega og virtust í lagi en Adam Árni Róbertsson hafði ekki verið eins heppinn og var borinn af velli á sjúkrabörum. Adam hafði þá aðeins verið í um fjórar mínútur inn á vellinum.
Eftir dómarakastið senduu Keflvíkingar boltann til baka en sá sem boltinn var sendur á rann til og það nýtti Magnús Þórir sér, náði boltanum og var skyndilega komin einn á móti Sindra Kristni. Magnús gerði vel, fór framhjá og skoraði annað mark sitt og þriðja mark Njarðvíkinga (63').
Keflvíkingar reyndu eins og þeri gátu en vörn Njarðvíkur stóðst öll áhlaup og til að gera illt verra fyrir heimamenn skoraði Oumar Diouck fjórða mark Njarðvíkinga í uppbótartíma (90'+4) og sigurinn var þeirra – Reykjanesbær er grænn!
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og tók myndir sem má sjá i myndasafni neðst á síðunni. Í spilaranum hér að neðan má sjá fögnuð Njarðvíkinga og viðtöl við Hólmar Örn Rúnarsson, annan þjálfara Njarðvíkur, markaskorarann Magnús Þóri Matthíasson og Harald Guðmundsson, aðstoðarþjálfara Keflavíkur.