Stórsigur Keflavíkur á Stjörnunni
Það var algjört Stjörnuhrap í Keflavík í kvöld þegar Keflavík tók á móti Stjörnunni í Pepsi Max-deild kvenna á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Heimakonur unnu stórsigur á Stjörnunni, 5-0, og náðu með sigrinum að komast úr fallsæti.
Keflavík var betra liðið á Nettóvellinum í kvöld og Stjarnan sá aldrei til sólar. Sophie Mc Mahon Groff kom Keflavík yfir strax á annari mínútu. Hún átti stangarskot sem barst aftur til hennar og þá lá beinast við að skalla boltann af öryggi í netið.
Sveindís Jane Jónsdóttir var svo búin að skora annað mark Keflavíkur þegar rétt stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir Keflavík. Krafturinn og sjálfstraustið var til staðar hjá Keflvíkingum sem höfðu yfirburði á vellinum og voru betra liðið í kvöld.
Það sannaðist strax á annari mínúru síðari hálfleiks. Þá skoraði Natasha Moraa Anasi þriðja mark Keflavíkur. Dröfn Einarsdóttir skoraði fjórða markið á 47. mínútu og Sophie Mc Mahon Groff gulltryggði svo glæstan sigur Keflavíkur með sínu öðru marki á 68. mínútu.
Eftir leik kvöldsins eru Keflavíkurstúlkur komnar upp í 8. sæti deildarinnar með sex stig. Næsta viðureign Keflavíkur á að vera gegn HK/Víkingi 3. júlí en skv. mótaskrá KSÍ hefur þeim leik verið frestað.
Keflavík 5 - 0 Stjarnan
1-0 Sophie Mc Mahon Groff ('2)
2-0 Sveindís Jane Jónsdóttir ('15)
3-0 Natasha Moraa Anasi ('47)
4-0 Dröfn Einarsdóttir ('64)
5-0 Sophie Mc Mahon Groff ('68)