Stórsigrar hjá Keflavíkurstúlkum og Grindavíkurdrengjum
Keflavíkurstúlkur völtuðu yfir blómastúlkurnar úr Hveragerði í 8 liða úrslitum Subway bikarkeppninnar í körfubolta í Toyota höllinni í Keflavík í kvöld.
Lokatölur urðu 102-57, hreint ótrúlegar tölur. Keflavíkurstúlkur fylgdu eftir góðum sigri í Grindavík fyrir nokkrum dögum og virðast í miklu stuði. Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði mest eða 27 stig og þar af sex þrista og frábæra nýtingu. Birna Valgarðsdóttir skoraði 19 stig og tók 13 fráköst.
Í Grindavík unnu heimamenn einnig yfirburðasigur í Subway bikarkeppni karla á lánlausum ÍR-ingum. Heimamenn skoruðu 105 stig gegn 78 hjá ÍR. Páll Axel Vilbergsson var öflugur hjá Grindvíkingum og skoraði 29 stig og tók sjö fráköst.
Brenton skorar gegn ÍR í kvöld. Páll Axel er á myndinni að ofan. Þorsteinn G. Kristjánssson tók myndirnar.
Pálína Gunnlaugsdóttir var í stuði gegn Hamri í kvöld og skoraði 27 stig.