Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stórleikur Stefans dugði ekki til
Fimmtudagur 8. janúar 2015 kl. 21:04

Stórleikur Stefans dugði ekki til

KR of stór biti fyrir Njarðvíkinga

Njarðvíkingar fengu hina ósigruðu KR-inga í heimsókn í Ljónagryfjuna í Domino's deild karla í kvöld. Úr varð hörkurimma þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en undir lokin. KR vélin hélt takti og hristi spræka Njarðvíkinga af sér á lokasprettinum. Lokatölur 76-86 fyrir gestina, sem satt best að segja virðast illviðráðanlegir.
 
Njarðvíkingar ætluðu greinilega að selja sig dýrt og léku grimman og góðan varnarleik allt frá upphafi. Vesturbæingar voru yfirleitt skrefinu á undan en heimamenn áttu góða spretti og eltu sem skugginn. Heimamenn voru mikið að skjóta fyrir utan þriggja stiga línuna, en alls fengu 31 slík skot að fljúga hjá grænum í leiknum. Þar af fóru átta rétta leið, en einungis hjá Loga Gunnars og nýja Bandaríkjamanninum, sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir Njarðvík í kvöld. Sá bandaríski, Stefan Bonneau, átti sannkallaðan stórleik, skoraði 35 stig og sýndi mögnuð tilþrif. Það á t.d. eflaust eftir að renna Njarðvíkingum seint úr minni þegar hann setti einn KR-inginn á skauta, setti þrist í andlitið á honum og fékk villu að auki. Virkilega spennandi leikmaður. Logi Gunnarsson átti auk þess frábæran leik á báðum endum vallarins. Það sem varð Njarðvíkingum hvað helst að falli í leiknum er að aðrir leikmenn tóku ekki nægan þátt í sóknarleiknum eða hittu illa. Eins var það stundum þannig að Njarðvíkingar biðu eftir því hvað Bonneau gerði. Hann þarf eflaust tíma til þess að aðlagast liðinu og þá verður spennandi að sjá.
 
Í fjórða leikhluta var leikurinn enn í járnum, en þegar um sjö mínútur voru til leiksloka settu KR-ingar í einhvern gír sem önnur lið viðast ekki búa yfir. Þeir spiluðu frábæran liðsbolta og settu niður skotin sín og skyndilega var munurinn orðinn 15 stig. Það reyndist Njarðvíkingum of stór biti og KR fór heim með sigur, þann tólfta á tímabilinu. Njarðvíkingar eru hins vegar með 12 stig og dvelja í miðjunni í sjötta sæti.
 
Njarðvík-KR 76-86 (18-23, 19-15, 25-28, 14-20)

Njarðvík: Stefan Bonneau 35/5 fráköst/6 stolnir, Logi Gunnarsson 20/5 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 9/8 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 6, Hjörtur Hrafn Einarsson 4/8 fráköst, Ágúst Orrason 2, Jón Arnór Sverrisson 0, Magnús Már Traustason 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Ólafur Aron Ingvason 0, Ragnar Helgi Friðriksson 0, Snorri Hrafnkelsson 0/10 fráköst.

KR: Finnur Atli Magnússon 18/7 fráköst, Michael Craion 18/13 fráköst/3 varin skot, Helgi Már Magnússon 16/5 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 12, Pavel Ermolinskij 10/10 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 7, Björn Kristjánsson 5/5 fráköst.
 
 
 

 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024