Stórleikur Magnúsar dugði ekki til
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik tapaði í gærkvöld gegn Pólverjum 75-85. Leikurinn í gær, sem fór fram í Keflavík, var þriðji vináttulandsleikurinn sem þjóðirnar hafa leikið á jafn mörgum dögum. Fyrsta leiknum lauk með 78-83 sigri Pólverja í Reykjavík en Íslendingar unnu annan leikinn 90-82 sem leikinn var á Stykkishólmi. Pólverjar sigruðu því 2-1 í rimmunni og fjögurhundruðasti leikur Íslenska landsliðsins því tapleikur.
Pólverjar opnuðu leikinn en Magnús Gunnarsson svarði um hæl með þriggja stiga körfu og þær áttu eftir að detta nokkarar í viðbót. Íslenska liðið var sterkari aðilinn í fyrsta leikhluta en Eiríkur Önundarson þurfti snemma að setjast á bekkinn með þrjár villur.
Eggert Aðalsteinsson og Rúnar Gíslason, dómarar leiksins, höfðu nóg að gera því leikurinn var harður og hvergi gefið eftir.
Í öðrum leikhluta hófu bæði lið að spila svæðisvörn og það virtist henta Pólverjum ágætlega þar sem þeir byggðu upp smá forystu. Íslenska liðið gaf þó ekki eftir og voru einu stigi yfir í hálfleik 39-38.
Pólverjar komu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og fóru hægt og rólega fram úr íslenska liðinu. Andrzej Pluta var þar atkvæðamikill og gerði hann alls 19 stig í leiknum. Magnús Gunnarsson sem var langbesti leikmaður íslenska liðsins gerði ein 32 stig í leiknum þar sem hann hitti úr sjö þriggja stiga skotum af fimmtán. Því miður fylgdi enginn fordæmi Magnúsar og Pólverjar því yfir 54-63 í lok þriðja leikhluta.
Íslendingar gáfu eftir í síðasta leikhlutanum og gengu því Pólverjar á lagið og náðu upp 10 stiga mun sem þeir héldu til leiksloka. Lokatölur leiksins 75-85 Pólverjum í vil.
Sigurður Ingimundarson, landsliðsþjálfari, var þokkalega sáttur í leikslok. „ Ég er tiltölulega sáttur við þessi úrslit, ég hefði viljað vinna leikinn en þegar skammt var til leiksloka þá gáfum við bara eftir.“
Eins og áður segir þá var Magnús Gunnarsson besti maður íslenska liðsins í kvöld með 32 stig, næstur á eftir honum kom Jakob Sigurðsson með 7 og þeir Páll Axel Vilbergsson, Fannar Ólafsson, Eiríkur Önundarson, Sigurður Þorvaldsson og Hlynur Bæringsson allir með 6 stig. Friðrik Stefánsson, Páll Kristinsson og Lárus Jónsson skoruðu 2 stig en Keflvíkingurinn ungi Halldór Halldórsson, sem var að leika sinn fyrsta landsleik komst ekki á blað.
VF-myndir/ Jón Björn Ólafsson: á efri myndinni er Jakob Sigurðsson í mikilli traffík inni í teig en á þeirri neðri má sjá Magnús Gunnarsson sökkva niður einni af sjö þriggja stiga körfum sínum í gær.
Tölfræðina úr leiknum má nálgast hér.