Stórleikur í Sláturhúsinu í kvöld
Tveir leikir fara fram í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik í kvöld og hefjast þeir báðir kl. 19:15. Viðureign Keflavíkur og Grindavíkur er mál málanna í kvöld þar sem þessi lið munu um þarnæstu helgi leika til undanúrslita í Lýsingarbikarnum.
Grindvíkingar hafa verið sjóðheitir að undanförnu og unnið síðustu átta deilarleiki í röð. Keflavík og Grindavík mættust síðast í deildinni þann 1. desember síðastliðinn þar sem Grindavík hafði nauman 92-90 spennusigur í framlengdum leik. Helga Hallgrímsdóttir reyndist hetja Grindavíkur í leiknum er hún náði sóknarfrákasti og gerði sigurkörfu leiksins.
Það má því reikna með miklum baráttuleik í kvöld en takist Keflavík að hafa sigur í leiknum jafna þær Grindavík að stigum á toppi deildarinnar. Grindavík hefur 24 stig á toppnum fyrir leik kvöldsins en KR og Keflavík hafa bæði 22 stig og eiga bæði leik til góða á Grindavík.
KR heimsækir Fjölnir í Grafarvoginn í kvöld en Fjölnir situr á botni deildarinnar með 2 stig en hafa verið að sækja í sig veðrið að undanförnu.
VF-Mynd/ [email protected] - Helga Hallgrímsdóttir í baráttunni gegn Marín Karlsdóttur í leik liðanna í Grindavík þann 1. desember síðastliðinn.