Stórleikur í Sláturhúsinu
Stórleikur í körfuknattleik fer fram sunnudaginn næstkomandi klukkan 16:00 í íþróttahúsinu við Sunnubraut þar sem Bikarmeistarar Keflvíkinga í knattspyrnu mæta nýkrýndum Íslandsmeisturum í körfuknattleik í Sláturhúsinu. Leikurinn verður leikinn upp á gamanið og stemminguna og er partur af samvinnu milli deildanna tveggja.
Fyrirkomulagið verður þannig að fótboltapeyjarnir byrja 60-0 og fá að vera 6 inná í einu gegn 5 Íslandsmeisturum. Í fyrra var sama fyrirkomulag þar sem körfuboltamenn unnu með flautukörfu í blálokin og má því búast við spennandi viðureign. Liðin spiluðu einnig í knattspyrnu milli jóla og nýárs sem endaði 14-13 fyrir fótboltamönnunum þar sem körfuboltamenn fengu að vísu 12 marka forgjöf.
Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflvíkinga í knattspyrnu, var stórhuga fyrir leikinn á sunnudaginn „Við ætlum okkur að vera fyrsta liðið til að vinna nýkrýnda Íslandsmeistara á heimavelli á þessu ári og ætlum okkur ekkert að gefa eftir.“ Sagði Guðmundur sem ætlaði sér að taka það hlutverk að gæta Magnúsar Gunnarssonar, stórskyttu Íslandsmeistaranna.
En Magnús var á þeim buxunum að ef fótboltakapparnir vinni á sunnudaginn geti þeir unnið alla í hvaða íþrótt sem er og myndu landa bæði Íslandsmeistaratitlinum og bikarmeistaratitlinum í sumar.
Stóra spurning er hvort hin marg umtalaða Trommusveit mætir á sunnudaginn og hvort liðið þeir muni styðja.
Vf-mynd: Guðmundur og Magnús mætast í Sláturhúsinu á sunnudag.