Stórleikur í Grindavík í dag
„Menn eru spenntir fyrir þessum leik og það er komin stemning í bæinn enda Sjóarinn síkáti að detta í gang,“ segir Óskar Pétursson markvörður Grindvíkinga en Grindvíkingar taka á móti taplausum Skagamönnum í dag klukkan 16:00 á laugardag. Óskar gerir sér grein fyrir því að ekki sé hægt að hrópa húrra fyrir gengi liðsins það sem af er tímabili og hann er ekki frá því að hann sé orðinn slappur í bakinu eftir að hafa náð í boltann úr netinu 16 sinnum í aðeins fimm leikjum. „Við erum fyrst og fremst að vinna í því að skipuleggja okkur varnarlega. Um leið og við náum að stoppa í götin þá verður þetta allt annað, því við erum með menn sem geta skorað,“ segir Óskar.
Grindvíkingar létu tvo leikmenn fara í vikunni en það voru þeir Gavin Morrison og Jordan Edridge sem ekki þóttu standa undir væntingum. „Það er leiðinlegt að missa þá því maður var búinn að kynnst þeim. En þetta er bara ákvörðun sem er tekin og við bara stöndum og föllum með henni og gott að sjá að eitthvað er verið að gera til að breyta genginu.“
Óskar segist bíða spenntur eftir því að sjá leikmann eins og Hafþór Ægi koma á völlinn aftur en hann hefur verið mikið meiddur síðustu árin. Hafþór, ásamt Paul McShane og Magnúsi Björgvinssyni, eru allir að stíga upp úr meiðslum og eiga vafalaust eftir að styrkja sóknarleik Grindvíkinga. „Það er samt engin markastífla hjá okkur, við verðum bara að hætta að fá öll þessi mörk á okkur.“ Í síðasta leik náðu Grindvíkingar að skora tvö mörk undir lokin og jafna 3-3 gegn Selfyssingum og krækja í stig. „Það er alltaf gaman að koma til baka en ég hefði viljað skora eitt í viðbót og stela sigrinum,“ sagði Óskar.
Hvernig verður að mæta Skagamönnum?
„Þeir eru með sterka leikmenn og það er sjálfsagt hugur í mönnum enda hefur þeim gengið vel. Við erum samt bara betri ef eitthvað er á móti þessum svokölluðu stóru liðum þannig að ég held að það verði bara helvíti gaman. Það er kominn tími til þess að þeir tapi og við náum að fylla völlinn,“ sagði Óskar að lokum.