Stórleikur í Grindavík
Grindvíkingar taka á móti toppliði KR í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld. Leikurinn hefst kl. 19:15 í Röstinni og segir Þorleifur Ólafsson sína menn verða að vinna leikinn ef þeir ætli sér að taka þátt í toppbaráttunni.
„Deildarkeppnin hefur verið skrýtin hingað til, það eru sex lið sem geta orðið meistarar og hin geta fallið,“ sagði Þorleifur í samtali við Víkurfréttir. Þorleifur, hér eftir Lalli, hefur þurft að stíga rækilega upp í Grindavíkurliðinu í vetur þar sem jaxlarnir Helgi Jónas Guðfinnsson, Guðlaugur Eyjólfsson og Pétur Guðmundsson lögðu skóna á hilluna. Lalli hefur gert 15,7 stig að meðaltali í leik þetta tímabilið en segir Friðrik Ragnarsson, þjálfara liðsins, gera sanngjarnar kröfur til sín. „Mér finnst ég sjálfur ekki nægilega stöðugur en þetta er allt að koma. Með brotthvarfi þremenninganna hefur ábyrgðin aukist hjá mér og hlutirnir eru að slípast saman hjá okkur í Grindavík.“
KR er á toppi deildarinnar og hafa leikið vel það sem af er tímabili, Grindvíkingar hafa átt þokkalegt tímabil hingað til og hafa fengið til sín Calvin Clemmons til að aðstoða liðið í síðari hluta deildarinnar. „Það var nauðsynlegt að fá Clemmons til liðsins fyrir breiddina og svo voru fráköstin atriði í okkar leik sem við þurftum að bæta,“ sagði Lalli en segir Grindavíkurliðið einnig skorta smá heppni. „Við áttum að vinna Keflavík í Sláturhúsinu en að einhverju leiti vantar okkur stöðugleika og mér finnst þjálfarnum vera að takast að koma stöðugleika í liðið, hef enga trú á öðru,“ sagði Lalli sem verður í eldlínunni í kvöld.
Fátt kemst annað að en körfubolti í fjölskyldu Lalla en hann á þrjú systkini og sá yngsti, Ólafur Ólafsson, hefur þegar leikið nokkra meistaraflokks leiki í Grindavík með bróður sínum. Eldri systir þeirra, Sigríður Anna Ólafsdóttir, leikur með KR í 2. deild kvenna en hvað lið mun hún styðja í kvöld? „Ég var búinn að heyra í Siggu og það kemst ekkert annað að hjá henni en Grindavík. Hún heldur bara með KR í 2. deild kvenna,“ sagði Lalli en eitt systkinið er enn óupptalið og það er Jóhann Ólafsson sem hefur ekki sést á parketinu í langa hríð sökum meiðsla en Lalli gerir ráð fyrir því að þeir verði þrír bræðurnir í Grindavíkurliðinu á næstu leiktíð.
Aðrir leikir kvöldsins í Iceland Express deild karla
Kl. 19:15
Hamar/Selfoss-Haukar
ÍR-Skallagrímur
Staðan í deildinni
[email protected]