Stórleikur hjá Watson og bikarinn á loft
Keflavík hafði öruggan 97-74 sigur á Hamri í sínum síðasta deildarleik í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Að leik loknum fengu Keflavíkurkonur afhentan deildarmeistaratitilinn og fögnuðu þær honum vel og innilega. Úrslitakeppnin er handan við hornið en í fyrstu umferð mun Keflavík mæta Haukum og KR og Grindavík munu eigast við í hinni rimmunni. Deildarkeppninni lýkur svo formlega á morgun með tveimur leikjum og þar ræðst hvort Grindavík eða KR muni hafa heimaleikjaréttinni í úrslitakeppninni.
TaKesha Watson var sjóðandi heit í Keflavíkurliðinu í kvöld og setti niður 42 stig í leiknum en næst henni kom Margrét Kara Sturludóttir með 14 stig, 15 fráköst og 6 stolna bolta.
Keflvíkingar pressuðu allan völl frá upphafi leiks til enda og á sínum varnarhelmingi léku þær svæðisvörn. Gestunum úr Hveragerði tókst misjafnlega til en áttu fína spretti. Ari Gunnarsson þjálfari Hamars fékk reisupassann í síðari hálfleik og um svipað leyti var allur vindur úr gestunum og Keflavík sigldi að öruggum sigri.
Keflavík leiddi 51-35 í leikhléi eftir þriggja stiga körfu frá Birnu Valgarðsdóttur og staðan var 69-58 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Hamarskonur hófu leikinn af miklu krafti í fjórða leikhluta og náðu að minnka muninn í 69-61 en þá var Keflvíkingum nóg boðið og stungu fljótlega af. Breyttu stöðunni í 86-69 og höfðu svo öruggan 97-74 sigur í leiknum.
LaKiste Barkus gerði 28 stig hjá Hamri, tók 9 fráköst og gaf 9 stoðsendingar og Iva Milevoj var með 20 stig. Fínir sprettir hjá gestunum en Keflvíkingar eru einbeittir þessa dagana og ætla sér greinilega stóra hluti í úrslitakeppninni þetta árið.
VF-Myndir/ [email protected]