Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stórleikur á Njarðtaksvellinum í dag
Frá leik Njarðvíkur og Fylkis í Borgunarbikarnum
Laugardagur 20. júní 2015 kl. 10:00

Stórleikur á Njarðtaksvellinum í dag

-Sigurður F. Gunnarsson skrifar um 2. deildar slag UMFN og Hugins

Eflaust hafa einhverjir skoðanir á því hvað skyldi kalla stórleik. Undirritaður hefur haft gaman af því að fylgjast með neðri deildar fótbolta á Íslandi undanfarin ár jafnt og keppni í efstu deild og er svo komið að aðeins eitt af sex liðum á Suðurnesjunum leikur í efstu deildinni og yrði Pepsí deildin flautuð af í dag væri staðreyndin sú að Suðurnesin ættu ekki eitt einasta lið í hópi 12 bestu liða landsins. Slíkt væri afar sorglegt en er ekki inntak þessarar greinar.

Leiðin á toppinn er oftar en ekki þyrnum stráð og er harkið sem að fylgir klifrinu og fallinu í neðri deildar knattspyrnunni heillandi að mínu mati. Það má alltaf finna hvatningu í alls kyns tölfræði í kringum kappleiki, sama hvað hver segir þá er alltaf eitthvað að veði og þótt að Íslandsmótið í knattspyrnu sé tiltölulega nýhafið þá er það í næstu 3-4 leikjum sem að línur fara að skýrast og í flestum tilfellum verður hlutskipti liða að stórum hluta ákveðið um mitt mót. Hvort að lið eigi möguleika á að fara upp um deild eða verði í baráttunni við botninn og forðist fallið með öllum tilteknum ráðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Oft er talað um svokallaða ,,6 stiga leiki" í knattspyrnu en eins og allir vita eru einungis 3 stig í boði fyrir sigur í slíkum kappleik. Þegar lið eru aftur á móti að berjast um stöðu í deildinni er oftar en ekki kveðið um ,,6 stiga leik" og á það hugtak vel við um leik Njarðvíkinga og Hugins sem að mætast á Njarðtaksvellinum kl. 14 í dag en leikurinn er hluti af 7. umferð 2. deildar karla. 

Njarðvíkingar eru sem stendur í 4. sæti deildarinnar og hafa misst dampinn eftir frábæra byrjun á mótinu þar sem að liðið náði í 10 stig í fyrstu 4 umferðunum. Njarðvík var svo aðeins nokrum mínútum frá því að slá Pepsídeildar lið Fylkis útúr bikarkeppninni en ótrúlegar lokamínútur í þeim leik munu seint gleymast þar sem að Fylkir skoraði þrjú mörk á síðustu 10 mínútum leiksins eftir að Njarðvík hafði verið 0-2 yfir og með stjórn á leiknum að því er virtist. Sálfræðilegt gjaldþrot mætti kalla þær mínútur en til að vera sanngjarn þá átti enginn von á því að Njarðvík myndi skora tvívegis á Fylkir, hvað þá halda þeim markalausum í 84 mínútur með tilliti til þess að tvær deildir skilja þessi tvö lið að í dag. 

Eftir það fylgdu tveir stórir ósigrar þar sem að Njarðvík tapaði samanlagt 0-10 gegn Leikni F. og KF. Með þessum tveimur leikjum fór markatala Njarðvíkinga í deildinni úr +4 í -6 sem er þriðja versta markatala deildarinnar og ekki sæmandi liði sem er í baráttu um efstu tvö sætin.

Huginn er þremur stigum fyrir ofan Njarðvíkinga fyrir leik dagsins með 13 stig en mun betri markatölu. Bæði lið eru í eltingaleik við ÍR og Leikni Fáskrúðsfirði sem eru við það að stinga af en hvorugt liðið hefur tapað leik.

Mikilvægi leiksins er því talsvert. Njarðvíkingar mega ekki við því að tapa ætli liðið sér að standa í efstu tveimur liðunum sem virðast vera í nokkrum sérflokki í deildinni og allra síst vilja Njarðvíkingar missa þriðja liðið 6 stigum fram fyrir sig. Til að auka enn á mikilvægi sigurs fyrir heimamenn er við hæfi að benda á að bæði Sindri (5. sæti með 9 stig) og Höttur (6. sæti með 9 stig) eiga bæði leik í dag og geta með sigri og hagstæðum úrslitum í leik Njarðvíkinga og Hugins farið allt að tveimur stigum upp fyrir Njarðvíkinga. 

Njarðvík getur því fallið niður um tvö sæti í dag og jafnvel farið niður um tvö til viðbótar á mánudaginn þótt að ólíklegt þyki að KV leggi Leikni F. á sunnudag eða Afturelding sigri ÍR á mánudag en ekkert er þó útilokað í íþróttum og liðin um miðja deild vita vel hversu stutt er í næstu lið fyrir ofan og því í sjálfu sér óþarft að hella eldsneyti á hungurbál þeirra. Versta mögulega niðurstaða væri að Njarðvíkingar ranki við sér í 7. sæti eftir helgi.

Að öllu ofantöldu þarf því ekki að fara fleiri orðum um leik dagsins. Njarðvíkingar þurfa að spila eins og þeir gerðu í fyrstu fjórum umferðum mótsins og ná í 3 stig. Svo einfalt er það.

[email protected]