Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stórleikir í boltanum í kvöld
Miðvikudagur 23. júní 2004 kl. 14:08

Stórleikir í boltanum í kvöld

Sjöundu umferð Landsbankadeildar karla í knattspyrnu lýkur í kvöld með fjórum leikjum. Þar mætast m.a. Keflavík og ÍA á Keflavíkurvelli og Grindavík og FH í Kaplakrika.

Leikirnir eru afar mikilvægir fyrir öll lið því að nú fara línur að skýrast í deildinni og enginn má við því að missa af stigum.

KEFLAVÍK-ÍA
Keflvíkinga bíður erfitt verkefni þegar þeir taka á móti Skagamönnum. „Þetta verður pottþétt erfiður leikur“, segir Guðjón Antoníusson, bakvörður Keflavíkur. „Skagamenn eru sterkir og spila massífan bolta og svo rekur Óli Þórðar þá áfram með harðri hendi af hliðarlínunni“.
Þrátt fyrir að ÍA sé fantasterkt að mannskap hefur þeim fatast flugið í síðustu leikjum og hafa þeir líka átt í erfiðleikum með að skora mörk. Keflavík virðist hins vegar vera á góðri leið með að sanna sig sem eitt best spilandi lið landsins og þarf nú einnig að sýna að þeir geti haldið út heila leiktíð á sama dampi.
„Við verðum tilbúnir í baráttu og vitum að hverju við göngum hjá þeim þrátt fyrir gengi þeirra að undanförnu“, segir Guðjón að lokum. „Við reynum bara að spila okkar bolta og látum þá ekki trufla okkur“.

FH-GRINDAVÍK
„Þessi leikur verður rosalega mikilvægur fyrir okkur“, sagði Grindvíkingurinn Gestur Gylfason í samtali við Víkurfréttir.
Hann og liðsfélagar hans mæta FH á útivelli í kvöld. „Ef við vinnum þennan leik gæti það verið ákveðinn stökkpallur fyrir okkur, en við vitum líka hvar við verðum ef við töpum!“
„ FH er með rosalegt lið og við erum taldir lakari en við tökum okkur bara á og gerum okkar besta“.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024