Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Stóri Daninn“ of stór biti
Föstudagur 19. nóvember 2004 kl. 00:14

„Stóri Daninn“ of stór biti

Keflvíkingar töpuðu fyrir Bakken Bears í Bikarkeppni Evrópu í kvöld, 80-81. Leikurinn var frábær skemmtun eins og allir leikirnir hafa verið til þessa.

Keflvíkingar voru í ákjósanlegri stöðu í upphafi fjórða leikhluta en misstu niður 10 stiga forskot og töpuðu sínum fyrsta leik í Evrópukeppninni í vetur.

Leikurinn byrjaði alveg eins og hinir leikir Keflavíkur, leikurinn var rólegur fyrstu mínúturnar, gestirnir komust aðeins framúr og svo rúllar Keflavíkurhraðlesin yfir allt.

Gunnar „Herra Evrópa“ Einarsson átti enn einn stórleikinn í kvöld og skoraði fyrstu 9 stig sinna manna. Gunnar var stigahæsti maðurinn á vellinum með 25 stig (þar af 6/11 í 3ja stiga) og var einnig öflugur í vörninni sem fyrr.

Danirnir mættu sterkir til leiks frá upphafi þar sem þeir negldu niður hverri þriggja stiga körfunni á fætur annarri og hittu yfir höfuð vel utan af velli. Stóri maðurinn undir körfunni, hinn 218 sm hái Chris Christoffersen, var erfiður viðureignar, en þegar hann fer útaf um miðjan fjórðunginn hrynur allt hjá Bakken. Keflavík skorar 11 stig í röð, þar sem Gunnar og Nick Bradford voru að verki, og komast yfir 22-21.

Vörnin hjá Keflvíkingum á þessum kafla og raunar allt fram í seinni hálfleik var með ólíkindum. Heimamenn voru líkt og úlfahjörð á dönunum sem komust lítið áfram gegn pressuvörninni og hirtu upp hvern boltann á fætur öðrum. Liðin voru jöfn að stigum þegar síðustu sekúndurnar tifuðu, en Bradford smellti niður 3ja stiga körfu um leið og leiktíminn rann út, staðan 27-24.

Í byrjun annars leikhluta náðu Keflvíkingar 10 stiga forskoti og voru alveg loftþéttir í vörninni. Sá eini í Bakken sem komst nokkuð áleiðis var skriðdrekinn Christofferssen en hina át vörnin með húð og hári.
Keflvíkingar léku á als oddi og sýndu skemmtileg tilþríf þar sem Glover og Bradford tróðu báðir eftirminnilega. Þá hrökk allt í baklás og gestirnir sóttu fast á allt þar til að þeir jöfnuðu rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, en Glover skoraði síðustu tvö stigin og tryggði forystu í hálfleik, 43-41.

Í seinni hálfleik tóku heimamenn völdin enn einu sinni þar sem fallbyssan Magnús Þór Gunnarsson lét vita af sér. Honum hafði gengið afleitlega með skotin sín allt þar til að Sverrir Þór Sverrisson stökk útaf vellinum eftir boltanum svo hann færi ekki útaf og grýtti honum til Magnúsar. Kappinn var ekki að tvínóna við neitt heldur stökk hann upp þar sem hann stóð, ekki langt frá miðjuhringnum, og smellhitti í körfuna við mikil fagnaðarlæti áhorfenda sem stóðu sig með sóma í kvöld og studdu vel við bakið á sínum mönnum. Skömmu síðar setti hann aðra og jók munin í tíu stig.

Sverrir Þór Sverrisson kom sínum mönnum í 13 stiga forystu þegar tæpar 4 mínútur eru eftir af leikhlutanum og var sem Keflvíkingar hefðu leikinn í hendi sér. Allt vann með þeim auk þess sem Christofferson gekk ekkert á þeim leikkafla. Munurinn var 10 stig þegar liðin héldu út í lokabardagann, 80-70.

Stóri Daninn lét aldeilis finna fyrir sér í upphafði síðasta fjórðungs þar sem hann og Jens Jensen, stórskytta, skoruðu 12 stig gegn sex stigum Keflavíkur. Lykilmenn Keflvíkinga hurfu gjörsamlega á þessum kafla þar sem Glover skaut t.d. hvað eftir annað fyrir utan 3ja stiga línuna án árangurs og Bradford og Gunnar fundu ekki glufu á vörn Bjarnanna. Það er lýsandi fyrir þennan kafla að baráttujaxlinn Jón Nordal sá um að skora stigin 4 sem komu inn í byrjun leikhlutans.

Bakken komst loks yfir, 78-79, er 2 mínútur lifðu af leiknum og voru lokasekúndurnar vægast sagt ekki fyrir taugasjúklinga, viðkvæmar sálir eða barnshafandi konur.

Þegar hálf mínúta var eftir sótti Gunnar villu fyrir utan þriggja stiga línuna og gat náð 2 stiga forskoti ef hann hitti úr öllum þremur. Einungis tvö fóru hins vegar niður og komu danir í sókn einu stigi undir. Keflvíkingum tókst ekki að stela boltanum af Bakken en slógu hann tvisvar útaf. Þegar fimm sekúndur eru eftir brjóta varnarmenn á Jeffrey Schiffner sem fer á vítalínuna. Á þessu augnabliki voru allir staðnir upp í húsinu og nötruðu af spenningi. Hávaðinn frá áhorfendum var yfirþyrmandi þar sem Schiffner stóð blákaldur á strikinu. Áhorfendur setti hljóða þegar hann hitti úr báðum skotum og kom dönunum yfir. Keflavík átti ekkert annað leikhlé og varð því að byrja leikinn við endalínu. Þeir köstuðu boltanum langt fram völlinn þar sem skot Gunnars einarssonar geigaði um leið og flautan gall. Lokastaðan 80-81 og leikmenn Bakken fögnuðu eins og þeir hefðu þegar tryggt sér titilinn.

Keflvíkingar gengu hnípnir af velli því að þeir vissu sem var að þeir áttu alla möguleika á að vinna þennan leik. Gott forskot fór forgörðum og sagðist Falur Harðarson, aðstoðarþjálfari, ekki geta gefið neina skýringu á því hvað fór úrskeiðis. „Við ætluðum okkur að sigra þennan leik, en það gekk ekki upp eins og sést.“ Aðspurður að því hvort tapið setti þá í óþægilega stöðu fyrir útileikjahrinuna sem er framundan jánkar hann því en er bjartsýnn. „Við ætlum okkur að vinna alla útileikina og trúum því að við getum gert það. Við erum alls ekki með lélegasta liðið í þessum riðli og höfum sannað það.“

Keflvíkingar eru enn efstir í riðlinum með 5 stig, jafn mörg og Bakken, en næsti leikur er í Frakklandi gegn Reims á þriðjudaginn.

Tölfræði leiksins

VF-myndir/Hilmar Bragi

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024