STÓRHÆTTULEGT ÞRÍEYKI Í GRINDAVÍK
Grétar búinn að skora 10 mörkFramherjar Grindvíkinga, Grétar Hjartarson og Scott Ramsey, og miðjumaðurinn Sinisa Kekic eru án efa skemmtilegasta og hættulegasta sóknarþríeyki sem Grindvíkingar hafa teflt fram í knattspyrnu. Sandgerðingurinn Grétar gæti orðið fyrsti Suðurnesjamaðurinn til að eignast gullskóinn síðan Keflvíkingurinn Steinar Jóhannsson 1971 en hann skoraði 12 mörk í 14 leikjum. Markakóngstitlar Suðurnesjamanna eru allir í einni fjölskyldu því Jón Jóhannsson, bróðir Steinars, á hinn titilinn sem Suðurnesjamenn hafa fengið, skoraði 8 mörk í tíu leikjum það herrans ár 1966. Grétar er nú markahæstur í Landssímadeildinni en hann hefur skorað 10 mörk.VF spurði Steinar hvernig honum litist á Grétar. „Ég hef ekki séð nema einn heilan leik, gegn Keflavík í síðustu viku. Mér fannst hann mjög skemmtilegur, hreyfanlegur og skilaði boltanum hratt og vel frá sér. Hann sýndi líka að hann er með góðar tímasetningar, var á réttum stað á réttum tíma“ sagði Steinar.