Stór fiskur í Njarðvíkurtjörnina - Haukur Helgi aftur í UMFN
Haukur Helgi Briem Pálsson landsliðsmaður mun leika með Njarðvík í úrvalsdeild karla á næstu leiktíð. Stjórn félagsins og Haukur hafa þegar undirritað með sér samning til næstu þriggja ára. Haukur snýr á nýjan leik í Ljónagryfjuna en hann var núna síðast á mála hjá ACB-liðinu Andorra á Spáni.
Njarðvíkingar og körfuknattleiksunnendur almennt ættu að þekkja vel til kauða en hann lék síðast með Njarðvík tímabilið 2015-2016 þar sem ljónin lutu í lægra haldi gegn KR í undanúrslitum Íslandsmótsins. Haukur snýr nú aftur og þá undir stjórn Benedikts Guðmundssonar sem nýverið tók við liðinu en þeir félagar hafa áður unnið saman.
„Það var ekki auðveld ákvörðun að kveðja atvinnumennskuna á meginlandi Evrópu, það er stórt skref og stór ákvörðun og því hafa fylgt miklar tilfinningar. Við fjölskyldan erum þó að sækjast eftir meiri festu í okkar líf enda mikið hark og rót á atvinnumannaferli körfuknattleiksmanns,” sagði Haukur Helgi í samtali við heimasíðu UMFN.
„Ég kem einnig heim til þess að leggja frekari grunn að framtíðarvinnu minni við sjávarútveginn og af þeim sökum finnst mér það réttasta skrefið fyrir okkur fjölskylduna að flytjast nú heim til Íslands. Þessi ákvörðun hefur vissulega farið fram og til baka en þegar öllu er á botninn hvolft var þetta aldrei spurning,” sagði Haukur sem ber miklar tilfinningar til Njarðvíkurliðsins.
„Nú er búið að stokka spilin talsvert hjá félaginu og síðast þegar ég lék í Njarðvík var mér mjög vel tekið. Njarðvík, að mínu mati, á ekki að finna sig á þeim stað sem liðið var statt í vetur. Mitt verkefni með liðinu er að taka þátt í að snúa því við, byggja upp karakter og Njarðvíkurandann á nýjan leik. Þessvegna tel ég sterkt að gera þriggja ára samning við félagið enda erfitt að búa eitthvað til aðeins á einu ári. Ég ætla mér að koma með metnað inn í félagið til að fara langt og gera atlögu að öllum titlum.”
Haukur hefur áður verið undir stjórn Benedikts Guðmundssonar en þá unnu þeir saman í yngri flokkum Fjölnis í Grafarvogi: „Ef það er eitthvað sem Benni hefur verið að gera vel þá er það að taka við liðum sem eru að finna sinn farveg, í fyrsta sinn eða upp á nýtt. Hann má eiga það að slík verkefni leysir hann mjög vel. Ég þekki Benna mjög vel enda þjálfaði hann mig í yngri flokkum hjá Fjölni svo ég held að þetta verði fáránlega skemmtilegt.”
Kristín Örlygsdóttir formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur lá ekki á ánægju sinni með nýjasta liðsmann ljónahjarðarinnar: „Haukur Helgi er einn af allra bestu leikmönnum þjóðarinnar í dag og því magnaður liðsstyrkur í Ljónagryfjuna. Hér þekkjum við vel til hans og Haukur þekkir klúbbinn sömuleiðis vel. Stjórn deildarinnar er himinlifandi með þessa ráðningu og þau gæði sem Haukur færir liðinu og félaginu öllu enda magnaður einstaklingur í svo víðum skilningi. Okkar bíður ærinn starfi og ný stjórn mun hafa nóg fyrir stafni í sumar.”