Stoltið að veði - baráttan um Reykjanesbæ
Ná Njarðvíkingar að koma fram hefndum?
Augu Reykjanesbæjar beinast að TM-Höllinni í kvöld en þar fer fram leikurinn sem allir hafa verið að bíða eftir. Keflvíkingar fá erkifjendurna frá Njarðvík í heimsókn en eftir síðustu viðureign liðanna hafa aðdáendur körfubolta beðið með óþreyju eftir þessari stundu. Síðast var boðið upp á rafmagnaða spennu þar sem Keflvíkingar unnu sigur á síðustu sekúndum.
Þegar þessi lið mætast er vitað mál að ekki er einungis um venjulegan deildarleik að ræða, heldur snýst þetta um stoltið og montréttinn svokallaða enda er mikill rígur milli félaganna. Fátt er meira rætt í skólum og samkomustöðum Reykjanesbæjar í dag og allur bærinn iðar hreinlega af spennu.
Leikurinn er sýndur beint á Stöð2 Sport en að sjálfsögðu er best að fá svona skemmtum beint í æð og mæta í Keflavík í kvöld, en leikurinn hefst klukkan 19:15.