Stolt Grindavíkur á stórmóti
Ingibjörg Sigurðardóttir er 24 ára og kemur frá Grindavík. Hún var í liði íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í fótbolta sem haldið var á Englandi í sumar. Víkurfréttir náðu tali af henni eftir mótið en þá var hún búin að vera í fríi í Albaníu til að „safna kröftum fyrir haustið.“
Aðspurð hvernig tilfinningin var að spila á stóru stóru móti eins og Evrópumótinu segir hún: „Hún var alveg mögnuð! Maður fann það bara um leið og maður hitti landsliðið á Íslandi, þegar við vorum að byrja að æfa þar, að þetta væri ekki bara einhver undankeppni fyrir stórmót. Þetta var stórmót en samt eitthvað miklu stærra og meira í gangi. Maður fann það líka þegar maður fór á hótelið á Englandi að þetta er mjög stórt og mikil vinna sem er búið að leggja í það að gera þetta að stóru móti. Þetta var mjög gaman og góð reynsla.“
Spilaði á móti þriðja besta landi heims
Ingibjörg segir að á heildina litið hafi henni fundist liðinu hafa gengið ágætlega. „Við áttum, að mér finnst, góðar æfingavikur fyrir mótið. Við áttum góðan leik við Pólland og síðan fyrstu tvo leikina á EM spilaði ég náttúrlega ekki neitt þannig að auðvitað hefði ég viljað spila meira en mér fannst stelpurnar standa sig mjög vel og við vorum eiginlega bara óheppnar að ná ekki að klára þetta. Mér fannst við eiga að fá alla vegana einn sigur í þessum tveimur leikjum en það eru náttúrlega bara góð lið á svona stórmótum þannig það eru bara erfiðir leikir og mikil pressa,“ segir Ingibjörg.
Það sem stendur upp úr að móti loknu fyrir Ingibjörgu er að hún fékk að spila í leik Íslands gegn frökkum. „Það voru ekkert smá mikil læti í stúkunni. Eftir að við komum út úr klefanum fyrir upphitun þá var strax fullt af fólki í stúkunni að hvetja okkur áfram. Ég held að sá leikur verði að vera mín besta minning,“ segir hún. Þá segist Ingibjörg vera sátt við frammistöðu sína og liðsins á mótinu. „Við stóðum okkur mjög vel, svona miðað við að við vorum að spila við þriðja besta landið í heiminum,“ segir Ingibjörg og bætir við: „Heilt yfir er ég ágætlega sátt en auðvitað vildum við komast upp úr riðlinum. Það situr alveg eftir smá svekkelsi í manni.“
Fann fyrir miklum stuðning
Ingibjörg segist hafa fundið fyrir miklum stuðning á mótinu og þá aðallega frá fólkinu sínu. Þá segir hún aðstandendur hennar vita að hún hafi beðið eftir tækifæri að spila á mótinu og því voru þeir afar stoltir þegar hún kom inn á í leiknum gegn frökkum. „Eiginlega öll fjölskylda mín kom út, leigði stórt hús og horfði á alla leikina. Það var ekkert smá gaman að hafa fólkið sitt með úti og geta hitt þau alla dagana. Ég var með nóg af fólki bak við mig. Þau voru náttúrlega mjög ánægð að sjá mig fara inn í frakkaleiknum, þeim fannst geggjað að geta fengið að sjá mig spila á þessu sviði. Þau vita náttúrlega að ég var búin að bíða eftir að fá tækifæri á þessu móti þannig þau voru bara mjög ánægð fyrir mína hönd,“ segir Ingibjörg.
Spennt fyrir komandi tímum
Ingibjörg Sigurðardóttir spilar einnig með fótboltaliðinu Vålerenga FC í Noregi og segir hún stór verkefni vera að fara í gang hjá henni með haustinu. „Það er úrslitakeppni að fara að byrja og síðan eru tveir landsliðsleikir aftur í september, tveir mjög mikilvægir leikir til að reyna að komast á HM. Þannig það verður nóg að gera,“ segir Ingibjörg. Aðspurð hvort hún sé spennt fyrir framhaldinu svarar hún játandi. „Ég er mjög spennt, eins og ég segi það er mikið af stórum og mikilvægum leikjum framundan, það er alltaf gaman að spila þá þannig ég er mjög spennt fyrir komandi tímum.“