Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stofnuðu körfubolta.net
Sunnudagur 18. september 2011 kl. 13:18

Stofnuðu körfubolta.net

Þeir félagar Adam Eiður Ásgeirsson, Gunnlaugur Sveinn Hafsteinsson, Sigurjón Gauti Friðriksson, Snjólfur Marel Stefánsson, Elvar Ingi Róbertsson og Jón Arnór Sverrisson eru miklir áhugamenn um körfubolta. Auk þess að æfa allir körfubolta hjá Njarðvík þá hyggjast þeir fjalla um allt sem snýr að þessari göfugu íþrótt á nýrri vefsíðu sinni, körfubolti.net.

„Ég og góðvinur minn stofnuðum moggablogg að nafni nba.blog.is í maí árið 2009. Eftir rúmlega ár þar eða í október 2010 ákváðum við svo að uppfæra síðuna í Körfubolti.net. Við vorum ekkert að flýta okkur að þessu og prófuðum marga vefþjóna en í febrúar 2011 var síðan loks sett í loftið,“ segir Adam Eiður Ásgeirsson sem stofnaði síðuna ásamt Sigurjóni vini sínum.

Hjá síðunni eru fimm virkir fréttaritarar og einn forritari, Elvar Pétur Indriðason sem sér að mestu um vefinn. Strákarnir vilja svo endilega að einhverjir fleiri bætist í hópinn en allir eru þeir 13 ára gamlir

Strákarnir segjast að sjálfsögðu stefna hátt og markmiðið sé að lesendur síðunnar verði eins margir og mögulega sé en þó eigi þeir eftir að bæta miklu við síðuna sem fór af stað fyrst í febrúar. Þeir segja viðbrögðin hafa verið góð, þeir hafi þegar fengið pósta um að þetta leggist bara vel í menn.

„Innlitin ruku náttúrulega upp þegar Karfan.is auglýstu síðuna nú fyrir skömmu. Reyndar vorum við bara að koma teljaranum okkar upp fyrir skömmu en við styðjum okkur svolítið við könnunina á síðunni og tæplega 200 manns hafa svarað og einungis er hægt að svara einu sinni, svo ég held að fólk viti alveg að þessu,“ segir Adam Eiður. Hann segist ekkert endilega stefna á að leggja þetta fyrir sig í framtíðinni og segist frekar vilja verða atvinnumaður í körfubolta og vonar að einhver annar taki við keflinu í framtíðinni.

Í vetur ætla strákarnir að fylgjast með því sem er að gerast í íslenskum körfubolta, mæta á leiki og taka myndir og þessháttar. Þó að allt líti nú út fyrir að ekkert verði leikið í NBA deildinni í vetur þá vona þeir að það bjargist, annars verða þeir bara að fjalla um háskólaboltann og helstu deildir Evrópu.

Hér má sjá síðuna hjá strákunum.

Mynd/Eyþór Sæmundsson: Adam, Jón Arnór, Sigurjón og Gunnlaugur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024