Stöðuvötn stöðva ekki kylfinga á Kirkjubólsvelli
Um 20-30 kylfingar heimsóttu Kirkjubólsvöll í Sandgerði og léku golf í góða verðinu sem var á Suðurnesjum í gær. Snjór er að mestu farinn á Kirkjubólsvelli en þess í stað hafa myndast stöku stöðuvötn á vellinum. Þau komu hins vegar ekki í veg fyrir að kylfingar léku golf á vellinum sem stækkaði í 18 holur síðasta sumar.
Guðmundur Einarsson, framkvæmdastjóri GSG, stóð vaktina í eldhúsinu og bakaði vöfflur fyrir gesti. Margir kylfingar eru vafalaust orðnir langeygir í að geta tekið fram golfkylfurnar að nýju eftir mikið fannfergi að undanförnu.
Opið er inn á sumarflatir allan ársins hring á Kirkjubólsvelli og hefur hann skapað sér sérstöðu í vetrargolfinu hér á landi. Völlurinn er opinn allan ársins hring. Það styttist óneitanlega í að fyrsta Opna mót sumarsins fari fram í Sandgerði en einhver bið verður á því enda er spáð snjókomu í vikunni.
Ásgeir Eiríksson var á ferðinni á Kirkjubólsvelli í gær og tók þessar skemmtilegu myndir.
Kylfingur.is