Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stjörnuleikur Keflavíkur dugði ekki gegn Stjörnunni - jafntefli 2:2
Mánudagur 23. ágúst 2010 kl. 21:42

Stjörnuleikur Keflavíkur dugði ekki gegn Stjörnunni - jafntefli 2:2


„Við gáfum þeim þetta stig og það eru mikil vonbrigði, ekki síst í ljósi þess að við vorum miklu sterkari aðilinn í þessum leik og lékum oft mjög vel,“ sagði svekktur Willum Þor Þórsson, þjálfari Pepsi-deildarliðs Keflavíkur eftir jafntefli við Stjörnuna í kvöld á Sparisjóðsvellinum. Lokatölur urðu 2-2 eftir að Keflavík hafði náð forystu í bæði skiptin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hörður Sveinsson sem hefur ekki verið á skotskónum í sumar skoraði mark eftir mínútu, reyndar ekki með skónum því hann skallaði boltann í netið eftir langa fyrirgjöf af hægri kanti. Sjörnumenn voru ekki lengi að jafna sig á þessari ógæfu og jöfnuðu 8 mínútum síðar og stuðningsmönnum Keflavíkur þótti mikil rangstöðulykt af þessu marki sem var eins og köld vatnsgusa framan í þá.
Heimamenn voru miklu aðgangsharðari við markið og áttu stangarskot og fleiri góð færi. Hörður Sveinsson áttu t.d. eitt gullið tækifæri, mjög svipað og hann náði ekki að nýta á Selfossi. Mörgum hefur fundist vanta markaneistann hjá kappanum en hann var þó á réttum stað þegar þriðja mark leiksins kom. Sutej tók þá innkast um tíu metra frá hornfána Störnumegin. Einar Orri Einarsson kom á móti honum, tók á móti boltanum og framlengdi boltanum áfram inn í teiginn að endalínu en þar kom bakvörðuinn Sutej á fleygiferð og skaut á markið. Fum og fát varð við Stjörnumarkið en Hörður náði boltanum og ýtti honum yfir marklínuna, 2-1.

Stjörnumenn jöfnuðu á 80. mínútu, algerlega gegn gangi leiksins. Halldór Orri Björnsson átti langa sendingu inn í markteiginn sem virtist hættulaus. Boltinn hins vegar endaði alveg við stöngina og hoppaði yfir línuna, 2-2. Þarna átti Lasse markvörður Jörgensen að gera miklu betur. Þetta skrifast á hann og reiknast sem þriðja klaufamarkið á hann í síðustu tveimur leikjum. Þrátt fyrir þunga sókn og nokkur mjög góð marktækifæri náðu heimanenn ekki að koma boltanum yfir marklínuna. Jafntefli því úrslitin og gestirnir fóru glaðir heim með annað stigið eftir erfiðan leik.

Keflvíkingum hefur gengið illa að undanförnu og hafa fengið bágt fyrir hjá mörgum stuðningsmönnum. Einhverjir þeirra sýndu hug sinn í verki með því að mæta ekki á leikinn því innan við þúsund manns mættu á Sparisjóðsvöllinn en þar hafa Keflvíkingar ekki enn innbyrt sigur en fyrsti leikurinn þar var í byrjun júlí. Síðan hafa Keflvíkingar aðeins unnið einn leik. Willum sagði að vissulega hefði hann og fleiri gert sér vonir um að liðið næði að halda sér í toppbaráttunni. „Það fylgja þessum vonbrigðum þyngsli og það er nú einu sinni svo að þegar maður er í þessu þá er þetta oft erfitt þegar illa gengur. Mér hefur fundist gagnrýni á liðið oft ósanngörn og óbilgjörn, aðallega hjá fjölmiðlum. Mótið er samt ekki búið og ég vona að við náum að innbyrða fleiri stig á lokakafla mótsins,“ sagði Willum, sár og svekktur í leikslok. Hann neitaði að tala við blaðamann Morgunblaðsins en hann var mjög ósáttur við umfjöllun blaðins fyrr í sumar.

Hörð gagnrýni á Keflvíkinga eftir háðuglegt tap á Selfossi hefur sennilega ýtt við leikmönnum sem voru grimmir og góðir í leiknum gegn Stjörnunni. Bláu Garðbæingarnir geta hrósað happi að hafa farið með annað stigið eftir þessa viðureign því seinna mark þeirra var mjög ódýrt. Einar Orri Einarsson var valinn maður leiksins hjá stuðningsmannafélagi Keflavíkur og það var vel valið. Hann hefur verið vaxandi í undanförnum leikjum. Aðrir leikmenn léku flestir vel og heimamenn virtust allan tímann hafa þennan leik í hendi sér. Það var gaman að sjá til Hauka Inga Guðnasonar og Jóhanns Birnis Guðmundssonar síðustu mínúturnar. Þeir áttu góða syrpu með hraða og fjöri og munaði litlu að þeir kláruðu dæmið fyrir Keflavík. Það var ánægjulegt að sjá Hörð Sveinsson skora tvö mörk en hann hefði getað skorað 4-5 í þessum leik og ef hann nýtti færin betur væri Keflavík ofar í töflunni þó það sé ekki hægt að setja þá sök á hann einan. Kannski kveikir þessi tvenna í kappanum.

Á heildina litið var það mikill klaufaskapur að klúðra þessu í jafntefli því þetta var stjörnuleikur hjá Keflavík. En það dugði ekki til og er kannski dæmigert fyrir gang liðsins í sumar eftir góða byrjun.

Einhver hafði á orði að það tæki kannski svona langan tíma að innbyrða sigra vegna nafnsins. Sparisjóðurinn sem hefur verið sverð og skjöldur Suðurnesja fór á hausinn fyrr í sumar en ekki Njarðtak en Njarðvíkurvöllurinn ber það nafn og skilaði góðum sigrum í upphafi móts. En svo er þetta kannski bara venjulegt Keflavíkur-„syndrom“ að lenda í basli um mitt mót. Það hefur gerst ansi oft. Því miður.

Á myndinni að ofan má sjá Hörð Sveinsson skora seinna mark Keflavíkur eftir undirbúning Alens Sutej og Einars Orra. A þeirri neðri horfa Keflvíkingar á eftir boltanum í jöfnunarmarki Stjörnunnar. Mjög slysalegt.

Sjá fleiri myndir í Ljósmyndasafni VF hér.